Vikan 30. - 6. júlí

Af flugi (smá). Tiltekt. Pappírsvinnu og vöfflubakstri.

 

Góðar fréttir og fleira.


1. Yfirkennari sýndi takta sína í vöfflubakstri og náði ágætum árangri. (Vöfflurnar voru étnar upp til agna).
2. Harðsnúið lið: Ída, Orri, Sigurjón og fleiri höfðu tiltekt og endurskipulagningu í Harðarskála. Gengið var rösklega til verks og höfðu eldri félagar varann á að þeir væru ekki settir í Sorpu með öðru ónýtu dóti.
3. Miklar rigningar og stundum úrhelli settu svip sinn á vikuna ásamt lofti á hraðferð fyrir Skeiðið. Gras og runnar tóku því góðum framförum. En þar sem gras á flugbraut má ekki vera yfir ákveðinni hæð (samkvæmt reglugerð) réðst Stebbi á það með þar til gerðum vélbúnaði. Náði hann ágætum árangri.


Flug. Eins og lesa má að ofan viðraði heldur stopullt til flugs. Engin afrek voru unnin í langflugi. Heimsókn fengum við frá Þýskalandi, svifflugfólk: hjón og dóttur. Fór hún í flug á SAS með Stebba og stóð sig vel enda alvön flugi. Sunnudagurinn endaði á úrhellisrigningu og lauk svo heldur leiðinlegri flugviku.


Úrbætur. Undirritaður treystir því að veðurfræðingur félagsins Birta Líf komi nú lagi á veðrið það sem eftir lifir sumars. Lágmarkskrafa er að allar helgar verði þurrar með termik (eða bylgjum) til langflugs,  en hang til hvunnddagsbrúks.


Með svifflugskveðju, loggarinn (ÁSJ)