Íslandsmót í svifflugi 2013

Um langt árabil var það svo, að hvað sem á gekk í íslensku þjóðlífi, þá var þó eitt sem hægt var að reiða sig á: Annaðhvert ár (á sléttu tölunum) var haldið Íslandsmót í svifflugi á Hellu fyrrihluta júlí.

Sumarið 2010 raskaðist þessi regla eins og menn muna, þá var mótinu aflýst en haldið í staðinn 2-10 júlí 2011. Samkvæmt tveggja ára reglunni ætti að halda mót í sumar og sé ég ekki ástæðu til annars en að stefna að því.

Þá vaknar spurningin, á mótið endilega að vera fyrstu eða aðra vikuna í júlí? Ástæðan fyrir þessari tímasetningu mun m.a. hafa verið sú að á þessum tíma sumars væri búið að heyja á amk hluta túna svo útilendingarstaðir væru tiltækir. Á hinn bóginn eru svifflugskilyrði (svo sem skýjahæð) yfirleitt því betri sem fyrr er sumars. Og svo er það að trúlega hafa bændur byrjað að slá seinna á sumri í kuldunum sem ríktu upp úr miðri síðustu öld en nú. Þannig að það er kannski ýmsilegt sem mælir með því að flytja mótið eitthvað fram.

Nú er það svo að hvorki undirritaður né Hr. Google búa yfir áþreifanlegum og ábyggilegum gögnum um veðurskilyrði (og þaðan af síður búskaparhætti) á Suðurlandi sem mætti nota til að taka upplýsta ákvörðun í málinu. Þess vegna þætti mér ágætt að fá fram skoðanir sem flestra.

Annað atriði sem hefur komið til tals áður er hvort gefa eigi Hellu upp á bátinn sem mótsstað. Eins og við vitum er veðrið á Hellu oft ekkert stórkostlegt, hafgolan komin inn áður en síðasta vél fer í loftið og algengt plan fyrir keppnisdag er þannig að það er dregið í 1000m hæð yfir Gunnarsholti og síðan tekur við langt renniflug í áttina að Haukadal þar sem menn finna fyrstu termikina. Það er þá spurning hvort ekki sé skynsamlegra að hafa bækistöðina lengra inn í landi, nær termikinni.

Í Haukadal hafa nokkrir flugáhugamenn, þar á meðal Steingrímur félagi okkar, komið sér upp aðstöðu og gert flugvöll með tveimur brautum, 500m langri A-V braut og 350 m langri braut sem snýr uþb N-S. Þeir félagar hafa boðið okkur að halda mótið þarna. Þarna mun vera sú aðstaða sem nauðsynleg er til að keppendur, lið og mótsstjórn geti hafst við þessa rúmu viku sem mót standa. Kostirnir við þennan stað eru fyrst og fremst veðurfarslegir, að ég tel, en ókostir eru auðvitað að það er lengra í sundstaði, verslanir og aðra þjónustu en á Hellu.

Að þessu sögðu er auðvitað rétt að taka fram að það er ekki enn útséð um að það verði tiltækar dráttarflugvélar í sumar (vegna skoðunarmála) svo hægt verði yfirhöfuð að halda mót og eins er ekki heldur ljóst hvað af svifflugum verða með lofthæfisskírteini né hve lengi. En samt væri mjög gagnlegt að fá athugasemdir frá sem flestum væntanlegum keppendum og öðrum svifflugmönnum um þessi tvö álitaefni, þeas hvenær og hvar mótið verði haldið, ef hægt verður að halda það.

 

f.h. stjórnar svifflugdeildar FMÍ

Hólmgeir Guðmundsson