16. - 22. ágúst

Dagana 16. -22. ágúst átti pistilskrifari að vera startstjóri, gegndi því embætti þó ekki nema eitt kvöld en sat þeim mun meira á spilinu. Jón Hörður bar hitann og þungann af kennslunni.

 

Mánudaginn var ekkert flogið.

 

Þriðjudaginn var vestan hang sem dapraðist þó þegar leið á kvöldið. Lendingarkeppni var á vélflugbrautinni sem tugir flugvéla tóku þátt í.

 

Á miðvikudag var NA-átt og flogin kennsluflug.

 

Fimmtudaginn var ákveðnari austanátt. SAS flaug tvö nokkuð löng flug og eins flaug Skúli yfirkennari sitt annað sólóflug í sumar, rúmar 40 mínútur. Önnur flug voru stutt.

 

Föstudagskvöldið var komin hvöss norðanátt, 20 hnútar og meira. Norðanstrekkingurinn gaf bylgjur sem skilaði sér í nokkrum löngum flugum, m.a. flaug Sverrir Þorláksson 3 tíma á SAX.

 

Á laugardaginn var sama veður og sló í 30 hnúta þegar best lét. Ásgeir Bjarnason og Daníel Stefánsson flugu í rúma 5 tíma á SWK. Ólygnir menn segja að þeir hafi flogið yfir Kerlingarfjöll og Keflavíkurflugvöll og virt fyrir sér menningarviðburði í miðbæ Reykjavíkur úr öruggri hæð. Karl Norðdahl var um 3 tíma á SBS og Eyjólfur svipað á SAL. Nokkur kennsluflug voru farin og þrjú flug með gesti og eru birtar myndir úr þeim flugum hér á síðunni.

 

Sunnudaginn var ekkert flogið. Það hefði svo sem verið hægt þrátt fyrir svolítinn rigningarhraglanda en menn líklega orðnir saddir eftir mikla flugviku eða þreyttir eftir menningarnótt.

 

Kveðja,

Hólmgeir Guðmundsson