Lausu kennslustofurnar og bruninn í Rimaskóla

 

Svifflugfélagið hefur um langa hríð haft hug á að stækka félagsskálann og byggja flugskýli eða geymslur. Nýjar Evrópureglur um flugkennslu sem Samgöngustofa fylgir eftir gera kröfur um húsnæði, aðstöðu og utanumhald flugkennslunar.
Félagið sá því góða nýtingu í lausum kennslustofum sem borgin auglýsti. Félagið hreppti húsin í auglýstu útboði og hugðist flytja þau á Sandskeið en Samgöngustofa hefur staðið í vegi fyrir því.
Nú eru húsin brunnin og ónýt og verða þau því ekki flutt á Sandskeið. Eftir stendur óleyst þörf félagsins á auknu húsnæði.
Óljóst er með bætur vegna brunans en líklega mun taka nokkurn tíma mánuði eða ár að fá niðurstöðu.
 
Baráttan um flutningsleyfi
Lausu kennslustofurnar voru 5 sem Svifflugfélagið keypti og áttu þrjár þeirra að nýtast upp á Sandskeiði og ein var seld Fisfélaginu.
Flutningsleyfi fékkst hins vegar ekki á Sandskeið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.  SGS (Samgöngustofa) hafnaði flutningslayfi nema fyrir lægi heimild frá sveitarfélagi sem Sandskeið heyrir undir. Engin lagastoð heimilaði kröfur SGS og var höfnun þeirra því kærð til ráðuneytis sem úrskurðaði SGS í vil með þeim orðum að eðlilegt væri að gera umræddar kröfur. Málið var sent Umboðsmanni Alþingis sem hefur gert ýmsar athugasemdir og lofaði ráðuneytið að taka málið upp til endurúrskurðar. Fjögur sveitarfélög gera tilkall til Sandskeiðs. Eitt þeirra, Kópavogbær neitaði að gefa nokkrar heimildir fyrir flutningi á Sandskeið og bar við að bærinn skorti heimildir til þess. Sú ákvörðun var kærð til Úrskurðanefndar um umhverfismál (UUA) en Kópavogsbær leikur þann leik að svara ekki erindum úrskurðanefndar sem er víst einsdæmi.    Félagið fékk hinsvegar flutningsheimild frá Seltjarnarnesbæ. en Svifflugfélagið fékk Sandskeið upprunalega til notkunar frá Seltjarnarneshreppi 1938 og hefur öll uppbygging félagsins á Sandskeiði frá upphafi verið gerð á grundvelli þeirrar heimildar. Þrátt fyrir heimild Seltjarnarnesbæjar hafnaði SGS félaginu um flutningsheimild.
 
Eignarhald Sandskeiðs er á Þjóðlendu samkv. Hæstaréttardómi í máli nr. 685/2008 og fer forsætisrðuneytið og forsætisráðherra með eignarhald á þjóðlendum. Félagið hefur ítrekað reynt að fá aðstoð og stuðning frá forsætisráðuneyti og m.a. beðið um fund með ráðherra en fátt hefur gerst á þeim bæ.
Félagið mun bíða eftir úrskurðum og niðurstöðum flutningsmálsins og hugsanlega á félagið kröfu um bætur vegna tjóns og málareksturs.
 
Kristján Sveinbjörnsson,
formaður SFÍ