Hilsen fra Norge II

 

Elverum,  4. september anno domino  2009

Aftur sendum við kveðjur okkar en í þetta sinn aðeins frá okkur þremur. Ída fór snemma á fætur til að fóðra mýið sem hún hefur sérstakt dálæti á og flugurnar eru líka sér vandfýsnar á gæði blóðs. Auk þess eru flugurnar stakar bindindisverur og því slétt sama um formann og gjaldkera. Um morguninn rigndi ákaflega, ekki var sitjandi úti á altani örðuvísi en að viskíð yrði lapþunnt á augabragði.  Mönnum brá nokkuð þegar þeir sáu að á borðinu lá undirritaður samningur af kaupum að Dynamic Ultralight, vél ársins 2008 með dráttarbúnaði, tölvuskjáum, GPS, auk autopilot og ekki batnaði líðanið þegar menn sáu að verðið var 100.000 evrur, félagsmenn eru því beðnir um að greiða skuldir sínar hið snarasta, svo ekki þurfi að skilja gjaldkera eftir í panti úti í Noregi. Gjaldkeri af alkunnri umhyggju bauðst til að ganga sjálfur  í pant en sökum hás aldur gekk það illa.

Seinnipart dags stytti upp og birti til og þá sáum við að úti á svuntunni stóðu ýmsar flugvélar, fór formaður í loftið á LS-10 turbo og vildi hann ólmur kaupa slíkt tæki en stjórn komst að þeirri niðurstöðu að þar sem þegar hafði verið keypt ein vél væri ekki hægt að kaupa tvær vélar sama daginn.  Ákveðið var að lifa sparlega eftir slíka fjárfestingu og fengu menn hálft epli til að næra sig.

Laugardagsmorgun hófst fundur, stóð hann lengi dags og var margt rætt og merkilegt og höfðu menn svifflugsfélagsins langar og merkilegar ræður. Um kvöldið var boðið til kvöldverðar en áður var farið í skoðunarferð til Løiten áfengisverksmiðju. Eftir góðar veitingar þar og mikla fræðslu um áfengisneyslu í Noregi á síðustu öld var ekið til herragarðar, þar sem Hákon Noregskonugur snæddi síðustu kvöldmáltíðina áður en hann flúði land. Þar kom í ljós að ritari félagsins átti alnöfnu í samkvæminu, sást þá gjörla sá munur sem nú er á atlæti á Íslands og í Noregi.  Þar átum við elg og hreindýr ásamt kartöflum, sósu og smökkuðum hin ýmsu vín líkt og konungur forðum daga. Eftir borðhaldið ákvað ritari að koma gjaldkera heim enda full þörf á. Formaður dvaldi áfram í góðum fagnaði í veislunni  og áður en yfir lauk höfðu langflestir norrænir svifflugsmenn lofað að flytja heimlisfang sitt í sveitarfélag Álftaness. Eftir viðburðaríkan dag sváfu allir vel um nóttina enda samviskan hrein eins og fjallalækur í vorleysingum.

 

Morguninn eftir var dagur Íslendinga á fundinum, formaður og ritari höfðu undirbúið sérstaka dagskrá sem nefndist 60+. Talaði formaður síðan langt mál og snjallt og sagði frá hversu vel gengi að kenna fullorðnu fólki svifflug. Undirtektir annarra manna urðu góðar og töldu þeir einsýnt að í framtíðinni yrðu eldri nemendur sendir til Íslands til frekari náms. Gerður var góður rómur að erindi formanns og ritara og skömmu síðar var fundi slitið. Síðla dags var ákveðið að fara í kynnisflug á ASK 21 MI,  ,,SLF” vél með 60 hestafla Wankel mótor og miklum og flóknum stjórntækum fyrir bæði mótor og flug. Flaug fomaður fyrstur, lengi og vel og taldi líklegt að hinir stjórnarmeðlimir færu í flug, jafnvel þótt að þá myndi skorta nokkuð á flughæfileika og spurning hvort kynnu að meta slíkt undratæki. 

Þessar línur eru skrifaðar á Gardemoen millilandaflugvelli en þangað komumst við ókeypis vegna hæfileika ritara félagsins.  Á leiðinni sáu stjórnarmenn fjölda vinnuvéla, stórar og smáar og varð okkur þá hugsað  til stórvinar okkar Tomma og hörmuðum það mikið að hafa áður eytt öllum fjármunum félagsins í flugvélakaup og því ekki hægt að fjárfesta frekar í nauðsynlegum landbúnaðarvinnuvélum fyrir flugsvæði félagsins. Nú höfum við hresst okkur við, eytt um 12.000 íslenskum krónum í tvær brauðsneiðar, lítinn hænubita og enn sársvöng. Hlökkum til að hitta ykkur.

Framritað er lesið fyrir af gjaldkera félagsins sem týndi samviskunni í upphafi ferðar. Með bestu kveðju til allra en gjaldkeri félagsins biður ykkur að greiða reikninga.