Vikan 24. - 30. ágúst

 

Nú fer senn að líða að lokum sumars og vertíðin að styttast hjá okkur svifflugmönnum.  Það var því mjög ánægjulegt að ná eins góðri helgi og raun bar vitni, eftir afleita byrjun síðustu viku vegna leiðinlegs veðurs.

Á laugardeginum var mikið flogið.  Skilyrði voru nokkuð góð, norðanátt, svolítið austanstæð, en gott norðanhang blandað með hitauppstreymi, a.m.k. fyrri hluta dagsins.  Samtals voru farin 20 flug, þar af þrjú lengri en tveir klukkutímar.  Kennsluvélin var í fullri notkun og menn kallaðir niður til þess að allir fengju sinn tíma.  LS4 og LS8 fóru líka í loftið, ásamt Duo Discus og tvær einkasvifflugur flugu líka.  Í heildina flugu 14 svifflugmenn í næstum 20 klukkustundir.  Það voru því þreyttir en ánægðir svifflugmenn sem pökkuðu saman um áttaleytið á laugardagskvöld eftir mjög góðan dag á Sandskeiði.

 

Sunnudagurinn var síðri en þá hafði vindur snúist í austanátt.  Það var þó hlýtt og bjart og reyndu menn að fljúga eins mikið og hægt var.  Karl Norðdhal var sá eini semi náði löngu flugi, eða rétt um tvo tímana.  ASK-inn flaug rúm 10 flug og tvö flug voru flogin á Duo Discus þannig að undir lok dagsins hafði þó nokkuð verið flogið þrátt fyrir léleg skilyrði.

Kveðja, Eyjólfur Guðmundsson