Íslandsmóti lokið

 

Eftir ónýtan sunnudag til flugkeppni, náðist gildur keppnisdagur á mánudag. Veðrið var heldur lélegt, skýjað og skúrir til fjalla en uppúr hádegi létti til suðursins með vaxandi sunnanátt.

Verkefni dagsins var Stóramörk við Markafljót - Stóraborg í Grímsnesi. Eftir nokkrar sviptingar luku aðeins tveir verkefninu, Kristján Sveinbjörnsson á TF-SAX og Steinþór Skúlason á TF-STK. Mótstjórinn Hólmgeir Guðmundsson studdur Þóri Indriðasyni eru í önnum að ljúka útreikningum sem birtir verða innan tíðar.

P.S. Er startstjóri mótsins hafði sent síðustu sviffluguna í loftið og þar með lokið tilgangi sínum, orti hann sér til hugarhægðar.

 Hellumót.  

lag: Séleg pía er Sigga Geira.

 

Þeir hittast allir á móti á Hellu

Þeir haldnir eru af flugi dellu

Og svífa að kveldi í svefninn inn

Með sælum draumum um bikarinn

 

Þar dreymir: múrarinn

Og mikli slátrarinn

Og líka læknirinn

Að lokum flugmanninn

Og reyndar rafvirkjann

Og röska Hólmarann

Og einnig afreksmann

En ekki mig.

 

Svo svífa þeir yfir grænum grundum

En greyin þurfa að lenda stundum

Kann að þyngist þar bænda brún

Er bæla svifflugmenn þeirra tún

 

Það bæla: múrarinn

Og mikli slátrarinn

Og líka læknirinn

Og lítið flugmanninn

Og reyndar rafvirkinn

Og röski Hólmarinn

Og afreksmaðurinn

En ekki ég.

 

Og verkfræðingurinn líkur völvu

Þar vísdóm reiknar á sína tölvu

Að lokum allir fá einhver stig

En ekki á það þó við um mig.

 

Tómas Waage