Fundargerð aðalfundar 2023

Aðalfundur Svifflugfélags Íslands 2023 var haldinn að Sandskeiði laugardaginn 29. apríl 2023 kl. 10.00.   Daníel Snorrason formaður bauð fundarmenn velkomna. Fundarstjóri úrskurðaði fundinn löglegan með þátttöku 20 félaga af 50 skráðum félögum

Kæru félagar.

Aðalfundur félagsins var haldinn 29. apríl á Sandskeiði 

 

Samkvæmt lögum félagsins skal fundargerð send fundarmönnum eða birt á heimasíðu félagsins innan tveggja vikna frá fundi. Fundarmenn hafa tvær vikur til að gera athugasemdir við hana.

 

Aðalfundur Svifflugfélags Íslands

 

Haldinn 29. apríl 2023 á Sandskeiði

Þetta gerðist:

 Aðalfundur Svifflugfélags Íslands 2023 var haldinn að Sandskeiði laugardaginn 29. apríl 2023 kl. 10.00.   Daníel Snorrason formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund og mælti með Friðjóni Bjarnasyni sem fundarstjóra.  Fundarstjóri úrskurðaði fundinn löglegan með þátttöku 20 félaga af 50 skráðum félögum og stakk upp á Ólafi Briem sem fundarritara sem var samþykkt samhljóða.  Fundarstjóri gaf formanni orðið.

Skýrsla formanns.

Formaður óskaði fundarmönnum gleðilegs sumars og taldi viðeigandi í upphafi fundar að menn risu úr sætum til að votta gengnum félögum virðingu.  Því næst flutti hann skýrslu stjórnar, sagði í stórum dráttum frá helstu atburðum liðins sumars og undirbúningi fyrir sumarið 2023.  Sagði hann frá nýjum félögum, viðhaldsmálum og boðaði félagsmenn sem leggja munu félaginu lið næsta sumar, á fund á Sandskeiði 6. maí nk. Til stendur að Jón Hörður Jónsson yfirkennari leggi þá línurnar fyrir vinnuliðin næsta sumar.  Þakkaði  Daníel þessu næst stjórninni fyrir samstarfið á liðnum vetri.  Engar athugasemdir voru gerðar við skýrsluna.

Skýrsla gjaldkera.

Kristján Jakobsson gjaldkeri fór yfir niðurstöðu reikninga.  Staldrað var við ýmsa liði m.a.  endurgreiðslu virðisaukaskatts á viðhaldsvinnu, kaup á aðföngum og öðru slíku.  Eignir eru metnar á uþb það sama og á síðasta ári rúmlega 33 m ISK og hagnaður nam 1,3 m ISK sem er töluverð aukning milli ára.  Útistandandi krafa á félagsmenn eru u.þ.b. 3 m ISK og greiðsluseðlar verða sendar út í næstu viku.   Ógreidd geymslugjöld eru hverfandi.  Fram kom athugasemd um lágar vaxtatekjur af eignum en því var svarað að vaxtahækkanir hafi ekki farið að skila sér inn fyrr en síðla árs 2022.  Kristján nefndi að hiti og rafmagn hafi lækkað með sértækum aðgerðum milli ára en á móti borgar félagið orðið hita og rafmagn í Skerfjafirði. Þá ræddi gjaldkeri aðra einstaka rekstrarliði svo sem tryggingar og opinber gjöld.  Reikningarnir voru samþykktir mótatkvæðalaust.

Kosning formanns.

Daniel Snorrason gaf kost á sér og var samþykktur með lófaklappi

Kosning þriggja meðstjórnenda

Pálmi Franken, Steinþór Skúlason og Jón Hörður  Jónsson ganga úr stjórn.  Þeir gáfu kost á sér áfram.  Alexander Jósef Daníelsson gaf að auki kost á sér.  Samþykkt var að halda leynilega kosningu.  Niðurstaða kosninga var sú að Alexander kemur nýr inn og Pálmi og Jón Hörður sitja áfram.  Þeir sem sitja áfram frá síðasta ári sem meðstjórnendur eru Ásgeir Bjarnason, Kristján Jakobsson gjaldkeri og Ólafur Mikaelsson.   Í framhaldi af kosningunum var rætt um það hvort nemendur geti orðið atkvæðisbærir félagar jafnvel fyrir einflugspróf og fyrir aðalfund þann sem á eftir kemur.  Því var beint til stjórnar að móta tillögu um lagabreytingar þess efnis fyrir næsta aðalfund.

Fulltrúi á fund FMÍ (Flugmálafélag Íslands).

Vísað til stjórnar.  Samþykkt

Félagskjörnir skoðunarmenn.

Benedikt Ragnarsson og Arnar Hreinsson

Árgjald

Stjórn lagði til að ársgjald verði 25.000 og 15.000 fyrir 67 ára og eldri, (var 22.000 og 10.000).  Samþykkt samhljóða.

Önnur mál.

Tómas Waage nefndi mikla þörf á kennurum í Fisfélaginu  á Hólmsheiði vegna ásóknar í fisflugið og stakk upp að félagið nýtti þá umframeftirspurn þar sem sóknarfæri til að halda á lofti starf SFÍ á Sandskeiði fyrir flugsvelta Fisnemendur.  Baldur nefndi ástand girðingar og þörfina á viðhaldi.  Ásgeir Bjarnason flugvallarstjóri nefndi að girðingarvinna stæði til um leið og aðstæður leyfðu og víst væri að fjármagn fengist frá flugmálastjórn til þess arna.  Árni S. Jóhannsson kvaddi sér hljóðs og útskýrði þá vinnu sem fram hefur verið til að safna viðtölum við eldri félaga og aðrar aðgerðir til að safna í sarpinn gögnum um sögu félagsins.  Þá ræddi hann slæmt ástand girðinga og að úrbóta væri þörf.  Þá hvatti hann til góðs samstarfs við nýjan bæjarstjóra í Kópavogi.  Baldur J. Baldursson tók undir þetta og ræddi skipulagsvald og úthlutunarrétt lóða á Sandskeiði.  Þórhildur Ída Þórarinsdóttir óskað Alexander til hamingju með kosninguna og þakkaði honum fyrir dugnað við starf á Sandskeiði og að hvetja ungt fólk til að stunda svifflug og að lokum minnti hún á mikilvægi þess að taka vel á móti nýjum gestum.  Karl Norðdahl taldi það allt gott og vel og jafnvel enn betra að hafa konu í skálanum á öllum stundum þannig að enginn kæmi að tómum kofanum þegar gest bæri að garði.

Fundarstjóri þakkaði gott hljóð og góðan fund og gaf formanni orðið.  Daníel þakkað góðan fund og þakkað Steinþóri Skúlasyni óeigingjarnt starf í þágu félagsins  en hann víkur nú fyrir Alexander Daníelssyni sem formaður bauð velkominn til starfa.  Bætti hann svo við þökkum til allra þeirra lykil félagsmanna sem hafa borið félagið á herðum sér.

Með þessu sleit fundarstjóri fundi kl. 1155.

Friðjón Bjarnason fundarstjóri                            Ólafur Briem fundarritari