Lög Félagsins

Lög Svifflugfélags Íslands

Svifflugfélag Íslands, Reykjavík.

stofnað 10. ágúst 1936

 

Heiti og Heimili

1. grein

Félagið heitir Svifflugfélag Íslands (SFÍ) og er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og Flugmálafélagi Íslands(FMÍ).

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

Tilgangur

2. grein

Tilgangur félagsins er að stuðla að útbreiðslu svifflugs og auka þekkingu á því. Í því skyni á félagið svifflugur og annan nauðsynlegan búnað, til afnota fyrir félagsmenn og fyrir svifflugkennslu.

Félagar

3. grein

Félagar geta orðið allir áhugamenn um svifflug sem lokið hafa einflugsprófi. Umsækendur yngri 18 ára skulu leggja fram skriflegt samþykki foreldra eða foráðamanna.

Félagar geta hvenær sem er gerst ævifélagar, með því að greiða í eitt skipti fyrir öll upphæð, sem svarar til 10 ára árgjalds eins og það er á hverjum tíma, (sbr. 9. grein).

Umsækjandi, sem er skuldlaus við félagið, telst félagi, eftir að aðalfundur samþykkir inntöku hans og hann hefur greitt árgjald.

4. grein

Styrktarfélagar geta orðið einstaklingar eða fyrirtæki, sem styrkja félagið með fjárframlagi, annaðhvort árlega (ársstyrktarfélagi), eða í eitt skipti fyrir öll (ævistyrktarfélagi).

Styrktarfélagi hefur rétt til setu á félagsfundum með málfrelsi og tillögurétti.

5. grein

Heimilt er að kjósa heiðursfélaga, þá er unnið hafa markverð störf í þágu svifflugs á Íslandi. Til kjörs heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði allrar stjórnarinnar.

Aðalfundur

6. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert, og skal til hans boðað með a.m.k. viku fyrirvara.

7. grein

Aðalfundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað og 2/5 hlutar atkvæðisbærra félagsmanna eru mættir.

Verði aðalfundur ekki lögmætur vegna ónógrar þátttöku, skal auglýsa hann á ný á sama hátt, og verður hann þá lögmætur.

8. grein

Formaður setur fundinn, en síðan tekur fundarstjóri við stjórn hans, og skal hann kosinn af fundarmönnum.

Fundarstjóri gerir tillögu um fundarritara og sker úr um öll atriði varðandi meðferð mála og atkvæðagreiðslur, nema sérstök ástæða sé til að vísa atriðinu til fundarins. 

9. grein

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin til meðferðar:

1. Skýrsla um starfsemi félagsins á síðasta starfsári.

2. Reikningar lagðir fram til samþykktar.

3. Kosning formanns, meðstjórnenda og skoðunarmanna.

4. Innganga nýrra félaga og samþykkt þeirra.

5. Kosning fulltrúa á þing FMÍ það ár sem þing og aðalfundur fara saman.

6. Tillögur teknar til meðferðar.

7. Ákvörðun inntökugjalds og árgjalds félagsins.

8. Önnur mál.

Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa allir félagar sem ekki skulda árgjöld.

Atkvæði eru óframseljanleg.

Kosningar skulu vera skriflegar, nema fundurinn samþykki annað.

Aðalfundur ákveður inntökugjald og árgjald félagsins.

10. grein

Á aðalfundi þarf einfaldan meirihluta til samþykktar mála.

Til samþykktar breytinga á lögum félagsins þarf þó 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna.

Tillögur til breytinga á lögum félagsins skulu berast stjórn félagsins þrem vikum fyrir aðalfund.

Halda skal fundargerð um það sem gerist á fundinum og skal hún undirritaðuð af fundarstjóra, ritara og formanni. Fundargerðin skal send fundarmönnum eða birt á heimasíðu félagsins innan tveggja vikna frá fundi. Fundarmenn hafa tvær vikur til að gera athugasemdir við hana.

Stjórn

11. grein

Stjórn félagsins skipa sjö menn, formaður og sex meðstjórnendur.

Aðalfundur kýs fomann til eins árs í senn. Þrír meðstjórnendur skulu ganga úr stjórn ár hvert og endurkosið í sæti þeirra til tveggja ára í senn. Stjórnarmeðlimir, sem ganga úr stjórn eru kjörgengnir til endurkosningar. Stjórn skiptir með sér verkum.

12. grein

Stjórnarfundur er löglegur, er minnst 4 stjórnarmenn eru mættir þ.m.t. annaðhvort formaður eða varaformaður.

Einfaldur meirihluti sker úr málum, en verði atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns.

13. grein

Formaður ásamt þremur meðstjórnendum skuldbinda félagið með undirskriftum sínum, nema til sölu eða veðsetningar á eignum félagsins.

Til veðsetningar eða sölu á eignum félagsins þarf annað tveggja:

A. Samþykki allra stjórnarmanna

eða

B. Undirskrift formanns og þriggja meðstjórnenda ásamt samþykkis 2/3 hluta félaga á löglega boðuðum félagsfundi þar sem heimild til veðsetningar eða sölu er tilgreind í fundarboði.

Sala á flugvélum og fasteignum félagsins er þó aðeins heimil að undangenginni kynningu á almennum félagsfundi.

14. grein

Stjórnin skal skipa sér til aðstoðar og ráðuneytis tvær þriggja manna nefndir: flugnefnd og tækjanefnd og skulu formenn nefndanna vera úr hópi stjórnarmanna. Verksvið nefndanna skal nánar skilgreint í starfsreglum er stjórnin setur.

15. grein

Stjórn félagsins velur flugkennara þess og skipar einn þeirra flugyfirkennara. Flugyfirkennari hefur umsjón með öllu flugi á vegum félagsins og er vald hans og verksvið nánar ákveðið af stjórninni.

Allt flug á vegum félagsins skal framkvæmt samkvæmt gildandi öryggisreglum.

Félagið ber ekki ábyrgð á slysum eða meiðslum, sem hljótast kunna vegna flugæfinga.

16. grein

Félagsmenn eru ábyrgir fyrir greiðslu á sjálfsábyrgð vegna tjóna á eignum félagsins sem rekja má til vanrækslu eða rangrar notkunar.

Aðrir notendur flugflotans bera sömu ábyrgð enda staðfesti þeir með undirskrift að þeir gangist undir slíka ábyrgð.

Stjórn félagsins er heimilt að falla frá kröfum um sjálfskuldarábyrgð ef aðstæður við tjón rettlæta það.

17. grein

Stjórninni er heimilt að ráða framkvændarstjóra til að annast daglegan rekstur félagsins eftir nánari reglum, sem stjórnin setur þar um.

18. grein

Félagsfundi skal halda að jafnaði einu sinni í mánuði, tímabilið nóvember til apríl, eða ef a.m.k. 15 félagar krefjast þess að með bréfi til stjórnarinnar og skal fundarboðun þá fara fram eigi einni viku eftir að krafan barst stjórninni. Félagsfundi skal boða með nægum fyrirvara skriflega og/eða með auglýsingu. 

Fjármál

19. grein

Reikningsárið er almanaksárið.

Til að endurskoða bókhald félagsins skal á aðalfundi kjósa tvo skoðunarmenn til eins árs í senn. Ársreikningurinn skal fenginn skoðunarmönnum í hendur a.m.k viku fyrir aðalfund.

20. grein

Á öðrum félagsfundi eftir aðalfund leggur stjórnin fram fjárhagsáætlun og skrá yfir fluggjöld og greiðslur eða hlunnindi fyrir vinnu á verkstæði og fyrir flugkennslu.

Fluggjöld skulu ákveðin af stjórn félagsins og skulu staðgreidd.

21. grein

Fjármuni félagsins skal einungis nota í þágu þess.

Lausir peningar, sem ekki þarf að nota vegna daglegs reksturs skulu geymdir í bankabók á nafni þess. 

Úrsögn og brottvikning

22. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send félagsstjórn. Úrsögn fær gildi einum mánuði eftir að hún barst stjórninni. Félagar er eigi hafa greitt árgjöld sín til félagsins í tvö ár eða lengur, skulu strikaðir af skrá þess, nema sérstakar gildar ástæður séu fyrir hendi, enda hafi verið skriflega innt um greiðslu.

Stjórnin getur vikið félaga úr félaginu, en ákvörðun hennar er heimilt að áfrýja til næsta aðalfundar.

23. grein

Brjóti félagi lög eða reglur félagsins, eða sýni agaleysi við flugæfingar, er stjórninni heimilt að setja hann í flugbann um tiltekinn tíma.

Félagsslit

24. grein

Félaginu verður aðeins slitið á aðalfundi, sem sérstaklega hefur verið boðaður í því skyni, og verður a.m.k. helmingur atkvæðisbærra félaga að vera mættir og 3/4 hlutur hinna mættu fundarmanna samþykkir slitum þess.

Verði félagsslit ákveðin, skal Samgöngumálaráðuneytinu falin umsjón eigna félagsins, þar til annað félag í svipuðum tilgangi yrði stofnað og ganga eignirnar þá til hins nýja félags.

25. grein

Aldrei má breyta ákvæðum 2. greinar, og ákvæðum annarrar málsgreinar 24. greinar

Um þau atriði sem ekki eru tekin fram í lögum þessum, gilda ákvæði í lögum ÍSÍ eins og við á.

Lög samþ. 1.feb. 1977

Breytt 5. feb. 1991

Breytt 7. feb. 1995

Breytt 1. feb. 2000

Breytt 7. Apr. 2022