Saga sjóflugskýlisins í Vatnagörðum

Ævintýraleg björgun Vatnagarðaflugskýlisins frá því að vera hent og því var heitið sem flugskýli fyrir Svifflugfélagið en síðan endaði á Patreksfirði.

Fyrri hluti.

 

Fyrstu starfsár Flugfélags Íslands hf. nr. II, var öll aðstaða afar bágborin fyrir flugvélarnar og starfsfólkið, aðeins fjaran og sjórinn. Má með sanni segja að aðstaðan hafi verið ein sú versta í öllum heimi. Við þessar aðstæður voru allar viðgerðir og skoðanir á flugvélunum framkvæmdar í kverkinni í Örfirisey, þar sem norðurgarðurinn tengist eyjunni. Þar var svolítið skjól af garðinum og eyjunni annarsvegar og af Grandagarðinum hinsvegar, sem þá tengdi Örfiriseyjuna við landið. Grandagarðurinn er nú horfinn undir verbúðir og götu, sem heitir nú Grandagarður.  
 

Til fróðleiks, fyrir yngri flugsögufélagana, var þarna fyrsta og eina járnbrautin sem lögð hefur verið á Íslandi. Hún lá alla leið frá Grandagarði og upp í Öskjuhlíð, þar sem grjótnámið var. Grjótið var flutt með járnbrautinni í uppfyllinguna niður að höfn. Ég man eftir því að ég lagði eitt sinn fimmeyring á einn járnbrautarteininn rétt áður en lestin kom keyrandi. Á eftir var peningurinn á stærð við 10 króna pening, eins og hann er í dag en örþunnur. Þá kostaði ein appelsína eða eitt vínarbrauð 5 aura.

Nú skal áfram haldið með flugsöguna í fjörunni í Örfirisey og lýst aðstöðunni þar. Í vestan- og austanroki gekk sælöðrið yfir garðana og lenti á flugvélunum og mátti oft litlu muna að flugvélarnar yrðu fyrir áföllum. Hafnarstjórn Reykjavíkur hafnaði beiðni Flugfélagsins um byggingarleyfi í Örfirisey á þeirri forsendu, að umferð sjóflugvéla og skipa innan hafnarinnar ættu ekki samleið.

Árið 1929 samþykkti hafnarstjórnin, að beiðni dr. Alexanders Jóhannessonar, að leyfa Flugfélaginu að byggja flugskýli í Vatnagörðum við Kleppsvík, þar sem nú er Sundahöfnin. Bygging flugskýlisins hófst árið 1930 og var henni að mestu lokið á því ári. Skýlið var reist rétt norðvestan við Vatnagarðatjörnina, sem nú er horfin undir mannvirki við Sundahöfn. Svellið á tjörninnni var vinsælt skautafólki úr Kleppsholtinu og Kleppsspítalanum. Tjörnin var á Íslandskortum til skamms tíma. Flugfélag Íslands notaði flugskýlið í Vatnagörðum, þar til að það hætti flugrekstri sínum í september 1931. Þar var þyngst á metunum, að kostnaður við byggingu skýlisins fór langt fram úr áætlun. Því næst eignaðist Reykjavíkurhöfn skýlið.

 

Þegar Italo Balbo flugmálaráðherra og flugmarskálkur Ítalíu kom til Íslands 1933, með 24 flugbáta, fékk hann flugskýlið í Vatnagörðum til afnota. Eftir það var flugskýlið oftast kallað Balboflugskýlið.


Vatnagarðaskýlið stóð svo ónotað þar til að breski flugherinn RAF tók það í sína þjónustu, þegar Bretar hernámu Ísland, í maí 1940. Það var svo 19. maí 1941 að norska skipið Fjordheim kom til Reykjavíkur með dýrmætan farm, en það voru 18 
  ósamsettar Northrop sjóflugvélar til norsku flugsveitarinnar 330 Sq., sem hér var staðsett. Norsku flugdeildina vantaði skýlið til afnota. Vélarnar, sem komu til landsins í stórum kössum, voru fluttar í Vatnagarða þar sem þær voru settar saman. Flutningi var lokið 31. maí og fór fyrsta vélin í reynsluflug 2. júní. Síðan fóru allar meiriháttar viðgerðir og eftirlit með vélunum fram í Vatnagarðaskýlinu árin 1941 - 1942, en minniháttar viðgerðir voru gerðar í Nauthólsvík. Eftir að Ísland var hernumið 1940, nefndist Vatnagarðaskýlið "Balbo Hangar" í munni Breta og héldu Norðmenn því nafni, meðan þeir voru þar.
Eftir að herinn hætti að nota skýlið tóku Loftleiðir hf. það á leigu í byrjun árs 1944. Það ár hóf félagið flugrekstur sinn. Loftleiðamenn byggðu lága verkstæðisbyggingu við suðurgafl skýlisins. Byggingin var að mestu smíðuð úr timburkössum, sem vélarnar voru í við komuna til landsins. Í árslok 1946, ári eftir að heimstyrjöldinni seinni lauk, fluttu Loftleiðir hf. starfsemi sína út Reykjavíkurflugvöll, en þá voru Loftleiðamenn að huga að kaupum á stærri landflugvélum.


Eftir að Loftleiðir fluttu úr Vatnagörðum fékk Snorri Halldórsson trésmíðameistari skýlið á leigu fyrir Húsasmiðjuna. Þar smíðaði hann hin svokölluðu Snorrahús. Þau setti hann saman á nokkrum dögum fyrir kaupendur víða um land. Árið 1955 flutti Snorri úr Vatnagörðum í Súðarvog 3 - 5, þar sem fyrirtækið er enn rekið með miklum myndarskap.

Bátasmíðastöð Sverris Magnússonar leigði flugskýlið að hluta með Snorra í nokkur ár. Bátasmíðastöðin hætti starfsemi vegna þess hversu erfiðlega gekk fyrir hana að fá greitt fyrir þjónustu sína.

Björgun hf. fékk svo Vatnagarðaskýlið á leigu árið 1955 og hóf þar starfsemi sína, sem var að bjarga strönduðum skipum, dýpkunarframkvæmdum og malar- og sandsölu. Björgun hf. var var með rekstur í Vatnagörðum til ársins 1974, en þá fluttu þeir inn á Sævarhöfða við Elliðaárvog. Með því lauk þætti skýlisins í Vatnagörðum í flugsögu Íslands.

 

Seinni hluti.

Árið 1974 var Sundahafnasvæðið malbikað vegna vörugeymsla Eimskips. Þá stóð Vatnagarðaflugskýlið enn á sínum stað og tafði malbikunarframkvæmdir. Einhver ágreiningur var á milli borgarstofnana um hver ætti að borga kostnaðinn við að rífa flugskýlið og flytja það á haugana. Það var talið mikið verk og kostnaðarsamt.

Nú skal frá því greint hvernig og hversvegna sá, sem þetta ritar, tengist sögu Vatnagarðaflugskýlisins. Í lok eins vinnudags birtist á skrifstofu minni hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Brynjólfur Eyjólfsson hjá Borgarverkfræðingi. Hann tjáði mér að það ætti að byrja að rífa Vatnagarðaflugskýlið strax daginn eftir og flytja það á haugana. Verkstjórinn sagðist vera kominn þeirra erinda að biðja mig um að aftengja strax rafmagnsheimtaugina við flugskýlið. Því næsta dag kæmi hann með stórvirk vinnu- og logsuðutæki á staðinn. Ætlunin var að láta niðurrifið ganga fljótt og vel fyrir sig. Flugskýlið hefði átt að vera farið fyrir löngu og það stæði í vegi fyrir framkvæmdum við Sundahöfn.

Mér brá við þessi tíðindi og fann að sofið hafði verið á verðinum varðandi varðveislu flugskýlisins. Elstu og merkastu byggingu íslensku flugsögunnar, hefði átt að vera búið að friðlýsa fyrir löngu, en nú hefðu borgaryfirvöld nú ákveðið að tortíma. Nú voru góð ráð dýr. Á einhvern hátt varð ég að stöðva þessa skemmdarstarfsemi. Ég sagði verkstjóranum að sækja um aftengingu á rafmagnsheimtauginni á aðalskrifstofunni næsta morgun, eins og venja var. Síðan skyldi ég athuga hvenær ég hefði mannskap tiltækan í þetta verk. Verkstjórinn brást hinn versti við og kvaðst verða að byrja strax á niðurrifinu. Ég benti honum á að húsið væri allt úr járni og um leið og hann hæfist handa myndi allt flugskýlið loga í rafmagni og verða lífshættulegt hverjum þeim, sem það snerti. Aðvaraði ég verkstjórann um hættu af raflosti og ef dauðaslys hlytist af myndi hann fá þungan dóm.Þegar ég var laus við Brynjólf verkstjóra hringdi ég til Agnars Koefod Hansen, flugmálastjóra. Mér var tjáð að hann væri á skrifstofu sinni. Ég hringdi þá þangað, en símastúlkan spurði undrandi hvernig ég hefði náð sambandi, því skiptiborðið hefði verið lokað í klukkustund. Hún var að bíða þess að símtali Agnars við Ameríku lyki svo hún gæti stillt símaborðið á næturstillingu. Bað ég stúlkuna að koma skriflegum boðum til Agnars, um að Matthías biði í símanum með áríðandi mál. Símastúlkan neitaði mér um þetta, en ég svaraði því til að hún yrði rekin úr starfi og Agnar yrði sér til ævarandi skammar ef hann sinnti ekki þessu mikilvæga máli sem ég ætlaði að ræða við hann. Ég sagðist mundu bíða í símanum, þar til Agnar lyki Ameríkusamtalinu. Eftir um 20 mínútna bið kom Agnar í símann og hrópaði, "hver fjárinn er á seiði Matthías?". Ég svaraði því til að hann hefði sofið á verðinum, því það ætti nú að rífa Vatnagarðaflugskýlið og henda því upp á öskuhauga næsta morgun. Ég hefði haldið að elsta og frægasta hús flugsögu landsins væri friðheilagt. Agnar hrópaði að það mætti ekki gerast. "Hvað á ég að gera?". Ég benti honum á að fá leyfi hjá hafnarstjóra, en hann hafði haft umráð yfir flugskýlinu og fá hann til að sækja um leyfi um að Svifflugfélag Íslands ætti að fá eignarrétt á skýlinu og skyldi fjarlægja það á eigin kostnað. Ef hann næði ekki í hafnarstjóra, þá mætti reyna við borgarverkfræðing og ef það gengi ekki ekki, yrði hann að ná sambandi við borgarstjóra.

Upp úr miðnætti hringdi Agnar í mig og sagði að þetta hefði verið það erfiðasta, sem hann hefði lent í. Því viðkomandi menn hefðu verið á lokuðum fundum, veislum eða erlendis, en leyfið væri fengið og Svifflugsfélagið mætti eiga Vatnagarðaflugskýlið, með því skilyrði að fjarlægja það strax. Nú þarf að stöðva vinnuflokka borgarinnar í fyrramálið svo þeir eyðileggi ekki skýlið sagði ég. "Hvernig förum við að við að stöðva mennina?" spurði Agnar. Ég svaraði því til að hann væri liðsforingjalærður og hlyti að hafa lært það í herskólanum að stöðva skemmdavargahópa. Agnar andvarpaði og sagðist ekki hafa neina hermenn til að stöðva þetta. Benti ég Agnari á að hringja í Sigurjón lögreglustjóra og biðja hann að senda lögreglumenn snemma næsta dags og tryggja að vinnuflokkarnir létu flugskýlið ósnert, því það væri friðlýst. Agnar var hálftregur að hringja í Sigurjón lögreglustjóra að nóttu til, en ég benti honum á að Sigurjón væri arftaki hans í starfi og hafði áreiðanlega oft þurft að hringja til hans til að fá upplýsingar og leiðbeiningar vegna erfiðra mála lögregluembættisins. Því ætti hann þetta margfalt inni hjá lögreglustjóra.

Klukkan 9 morguninn eftir kom ég að flugskýlinu og sá vinnuflokka, kranabíla og 4 fulltrúa frá borgarverkfræðingi standa þarna í snörpum umræðum um hver vogaði sér að senda lögreglu á opinbera starfsmenn og varna þeim að sinna embættisstörfum. Þegar ég kom þarna og spurði hvað um væri að vera og hvort þeir vissu ekki að Svifflugfélag Íslands ætti flugskýlið og það myndi fjarlægja það. Þá hrópaði einn fulltrúinn; "Hann er þó ekki á bak við þetta allt, helvítið hann Matthías".


Nú þurfti að hafa hraðan á og fór ég að safna saman liði hjá Svifflugfélaginu og Flugsögufélaginu. Að svo búnu fór ég beint í verslun
 

Fossberg og þá hitti svo vel á að þar starfaði félagi í Flugsögufélaginu. Þegar ég sagði honum hvað til stæði og hversvegna okkur vantaði að fá lánaða 20 stjörnulykla, tvær mismunandi stærðir. Hann brá skjótt við og sagðist mæta með lyklana innan við hálftíma og hann mundi líka hjálpa til við að bjarga skýlinu. Næst fór ég í Slippinn og náði tali af verkstjóra þar og sagði honum að við þyrftum nokkra potta af ryðolíu og sprautukönnur en það mætti ekki kosta neitt. Verkstjórinn horfði undrandi á mig svolitla stund, en náði svo í 5 lítra brúsa af ryðolíu og 6 olíukönnur. Hann sagði mér að skila afganginum að verki loknu.


Nú voru allir mættir við flugskýlið og haldinn fundur um hvernig heppilegast væri að vinna verkið. Sá sem þetta ritar var sá eini í hópnum, sem hafði reynslu af byggingu stálgrindahúsa og stálturna, var ég sjálfkjörinn yfirverkstjóri á þessara framkvæmda. Sex menn voru settir í að sprauta ryðolíu á hvern einasta skrúfbolta, en það voru tveir 1½ tommu brjóstboltar og einn ¾ tommu skrúfbolti við hver samskeyti. Það kom í ljós að hvorki var ryð að sjá á járngrindinni eða skrúfboltunum og losun gekk því mjög vel.

Aðrir fóru í það að losa bárujárnið frá grindinni en það virtist vera óvinnandi vegur í fyrstu því það var búið að rafsjóða teina í hundraðatali í stálgrindina og bárujárnið. Nú voru góð ráð dýr. Þá fékk ég þá hugmynd að draga út á jeppanum mínum, stálvír eftir endilöngu þaki skýlisins og svo undir bárujárnið og ofan á stálgrind skýlisins og svo til baka að gaflinum við bílinn. Ég festi spilvír við annan gaflinn. Bakkaði ég nú jéppanum og þau undur og stórmerki gerðust, að bárujárnið rifnaði frá stálgrindinni og rúllaðist upp eins og pönnukaka og allir viðstaddir hrópuðu kátir húrra.

Óttar Möller, forstjóri Eimskips var þarna á ferð á meðan á þessu stóð og dáðist að vinnubrögðunum. Hann spurði hvenær við myndum klára verkið. Ég sagði að hann gæti flýtt fyrir verkinu, ef hann lánaði okkur stóra flutningabílinn, sem stóð við eina skemmuna ónotaður. "Það skal ekki standa á því" sagði hann og bíllinn var kominn til okkar eftir nokkrar mínútur.

Nú vantaði bara stóran bómukrana. Ég litaðist um eftir slíkum krana og sá einn við hafnarbakkann í grjótvinnu á vegum hafnarinnar. Þar hitti ég verkstjórann og sagði honum að við værum að rífa flugskýlið fyrir hafnarstjórann og við þyrftum að fá bómukranann í nokkrar klukkustundir. Karlinn var tregur til, en ég sagði að ef hann lánaði okkur ekki tækið, þá myndi hann fá skömm í hattinn frá hafnarstjóra. Þá gaf hann sig loksins og bómukraninn kom. Nú gátum við tekið 30 fermetra hluta í einu úr stálgrindinni og sett beint á flutningabílinn. Þetta sést vel á meðfylgjandi myndum. Farið var með stálið út á Reykjavíkurflugvöll. Stálinu var svo hrúgað upp norðan við Loftleiðahótelið, en þar tók Njörður Snæhólm yfirlögregluþjónn á móti stálinu og var síðan, ásamt fleiri félögum, í um vikutíma að flokka það.

Allt stálið náðist óskemmt og hver einast skrúfbolti, sem voru í þúsundatali, náðust heilir. Skrúfboltarnir voru settir í litlar tunnur til geymslu. Þannig lauk þessu óvenjulega ævintýri giftusamlega.

Síðan liðu nokkur ár þá sá ég í Morgunblaðinu, að Pétur Einarsson flugmálastjóri, gefur Vatnagarðaflugskýlið Safni Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Ég hafði þá samband við formann Svifflugfélag Íslands og vildi ég að félagið færi í mál við flugmálastjóra, því hann hefði ekki vald til að gefa flugskýlið okkar. En formaðurinn svaraði því til að flugmálastjóri hefði styrkt og reynst félaginu svo vel og því færi það ekki í mál við hann.

Þrátt fyrir allt sem á gekk, ættu flugáhugamenn og margir fleiri að vera sáttir og glaðir vegna þess að Vatnagarðaflugskýlið glataðist ekki og hefur nú verið endurreist fyrir flugminjar og fleira að Hnjóti.

Hér hef ég lýst hvernig okkur tókst að bjarga einu af þremum þessara frægu Junkers flugskýla, sem enn eru til í heiminum í dag. Hin Junkers flugskýlin eru varðveitt í Egyptalandi og Argentínu og eru nýtt sem flugsögusöfn. En því miður missti Svifflugfélag Íslands af Vatnagarðaflugskýlinu. Við höfðum gert okkur vonir um að Vatnagarðaflugskýlið myndi leysa húsnæðisvanda Svifflugfélagsins á Sandskeiði til frambúðar.

Hér sannast hið fornkveðna:
Ekki eru allar ferðir til fjár.


Endursamið í nóvember 2006 af Matthíasi Matthíassyni.
Flugskírteini nr. 139.
P.S. Ýmsum atriðum hef ég nú sleppt í þessari upprifjun, sem ég taldi að mætti láta liggja milli hluta og gæti jafnvel sært einhverja sem hér koma við sögu.