Það fer um mann fiðringur

þegar vírinn strekkist og spilið fer að draga sviffluguna, hraðinn eykst frá núlli upp í hundrað á þrem til fjórum sekúndum og svo allt að 120 km/klst og stefnan er upp í blámann.

Velkomin

Það fer um mann fiðringur, þegar vírinn strekkist og spilið fer að draga sviffluguna, hraðinn eykst frá núlli upp í hundrað á þrem til fjórum sekúndum og svo allt að 120 km/klst og stefnan er upp í blámann. Í 3-400 metra hæð heyrist smellur, vírnum, sem dregið hefur þig á loft, er sleppt og þú svífur frjáls eins og fuglinn. Stefnan er tekin á næsta fjall, Vífilfell, því þar er von um uppstreymi.

Tvær til þrjár ferðir meðfram fjallinu og þú ert kominn í 5-600 metra hæð og útsýnið er engu líkt, Sandskeið fyrir neðan þig, litlu norðar er Vesturlandsvegurinn og bílarnir á stærð við leikföng, Faxaflói opnast til vesturs, Reykjavík blasir við ásamt Hafnarfirði, Kópavogi og Mosfellsbæ, Snæfellsnesið í fjarska svo og Reykjanes. Til norðurs Esjan, austan við hana Móskarðshnjúkar, Skálafell og Botnssúlur. Til norðausturs Þingvallavatn, Hengill og Búrfell í Grímsnesi.

Til austurs getur að líta Hellisheiði, Ingólfsfjall ásamt Hveragerði, Selfossi og ,,StokksEyrarbakka", enn austar Hekla auk þess fjöll, fljót og jöklar Suðurlands og í góðu skyggni Vestmannaeyjar og Surtsey. Sértu snjall (snjöll) eða heppinn (heppin), nema um hvorutveggja sé að ræða, getur þú haldist á lofti klukkutímum saman og hér ríkir þögnin. Ekkert vélarhljóð truflar þig, það eina sem heyrist er þytur, sem verður til þegar svifflugan klýfur loftið.

Oft kemur það þó fyrir, að skilyrðin eru léleg, uppstreymi lítið og er þá ekki annað til ráða en að lenda. Þegar sviffluga er lent, koma aðstoðarmenn til skjalanna og aðstoða flugmanninn við að draga flugtækið af flugbrautinni, í biðstöðu, þar sem næsti maður getur síðan gengið að henni og drifið sig í loftið á vit ævintýranna.

Sá sem stundar svifflug er ekki bara flugmaður eða flugnemi, hann er einnig aðstoðarmaður, því íþrótt þessa er ekki hægt að stunda án aðstoðar annarra, aðstoðarmennirnir eru því hryggjarstykkið í starfseminni. Það þarf að koma svifflugunum á flugtaksstað, sækja spilvírana, hengja þá í flugurnar, skrá flugtök og lendingar, spilmaður stjórnar spilinu, og sv. frv. Þannig hjálpast allir að við að láta hlutina ganga fyrir sig á þann hátt, að allir hafi gaman að, því maður er manns gaman og það er ekki síst félagsskapurinn, sem menn eru að sækjast eftir, þótt áhugi á flugi sé það, sem fær okkur, í upphafi, til þess að fara upp á Sandskeið.

Hafir þú áhuga á að taka þátt í skemmtilegum félagsskap og læra að fljúga, skjóstu þá upp á Sandskeið og kannaðu hvort við höfum eitthvað það fram að færa sem hentað gæti þér.

Skúli A. Sigurðsson