Bless við braggann

 

Harkalið Svifflugfélaga mætti fyrir nokkru til að rýma braggann, sem SFÍ  hefur haft til afnota – til bráðabirgða í rúmlega fimmtíu ár.

Húsafriðunarnefnd hefur hug á að vernda gamla Hótel Winston, jafnvel til notkunar sem minjasafn um stríðsárin og er það vel.  Eins og sjá má er bragginn orðinn heldur framlágur og lúinn.  Hann hefur mátt þola endalaus innbrot og skemmdarfýsn auðnuleysingja ofan á eyðingu ryðs og fúa og er mál að linni.  Myndirnar sem Þórmundur Sigurbjarnason tók tala sínu máli og svo fylgir hluti af bréfi Friðþórs Eydals um braggann.

 

“Bragginn sem hér um ræðir er nokkuð sérstakur af því að hann er af bandarískri Butler-gerð, sem þekkist á því að klæðningin er ekki hefðbundin bárujárnsklæðning heldur slétt stál með stökum bárum með nokkru millibili.  Þá er hann sambyggður húsi sem var hluti gistibúða flugáhafna og farþega breska flughersins, Transit Camp, sem var flugvallarhótel hersins, reist árið 1942 og gekk síðan undir nafninu Hótel Winston.  Bandaríkjaher hafði ekki afnot af því húsi þótt stórt skálahverfi þeirra hafi staðið í nágrenninu, þ.e. á bökkunum innan við Nauthólsvík en þeir hafa látið Bretum braggann í té í skiptum á birgðum og tækjum sem voru algeng á grundvelli svonefndra láns- og leigukjara sem bandamönnum þeirra buðust í stríðinu.  Braggar af þessari síðustu og fullkomnustu gerð voru aldrei margir hér á landi og taldir langverðmætastir þeirra bragga sem Sölunefnd setuliðseigna fékk til ráðstöfunar og seldi almenningi eftir stríð.

Braggahverfið Hótel Winston var notað sem flugvallarhótel eftir stríð uns það eyðilagðist að mestu í eldsvoða nema þau hús sem enn standa ofan við Nauthólsvík.

Saga af því að Churchill eigi að hafa hallað sér upp að arni í Hótel Winston er flökkusaga því búðirnar höfðu enn ekki verið reistar þegar hann hafði viðdvöl í Reykjavík eina dagstund sumarið 1941. Hafi hann hallað sér að arni á þessum slóðum, e.t.v. í heimsókn til yfirmanna flughersins á Reykjavíkurflugvelli daginn góða, er líklegast að það hafi verið í samkomuskála þeirra (Officers´ Mess) sem stóð nokkru norðan við þann stað sem Hótel Winston síðar reis á.”

 

Tómas Waage