Dustið rykið af loggbókinni


Eftir að hafa fylgst með eldri syninum á sundmóti fatlaðra allan daginn, þar sem hann nældi sér í brons fyrir skriðsund og við að springja úr monti, þá var vel við hæfi að taka stefnuna upp á Sandskeið enda augljóslega fínt svifflugsveður, norðanstrekkingur og bjart.

 

Skeiðið virtist þurrt en svolítill snjór í fjöllum. Þar höfðu verið settar saman SAC og SAX og menn svifið í góðu uppstreymi. Sælubros einkenndi þá sem þar voru og ekki laust við að undirrituð fyndi fyrir öfund. Að ganga átta var byrjað að setja vélar inn, þegar ,,sumir” fengu hringingu og voru minntir á kaldan kvöldmat í ísskápnum og óhitað grill. Það örlaði á að smá titrings gætti yfir að hafa gleymt sér í svifflugssælunni. Eftir augnablik mátti sjá rykmökkinn, þegar var spólað í burtu á leið í bæinn til að sjá um spúsuna og matinn.


Í vestri við Harðarskála mátti síðan greina rosabaug, en nafnið er örugglega tilkomið af því að hringurinn þýðir rosalega leiðinlegt veður fyrir svifflugsmenn, lægð á leiðinni og rigningu í nokkra daga en svo styttir upp.Góður dagur á enda en svifflugsumar handan við hornið.

Dustið nú rykið af loggbókinni og drífið ykkur í svifflug.

Kveðja, Ída