Með hækkandi sól lyftist brúnin á svifflugmönnum. Ákveðinn fiðringur gerir vart við sig og það styttist í að menn geti skroppið og notið náttúrunnar, kyrrðarinnar, útsýnisins eða hvað það er sem fær menn til að laðast að sviffluginu. Hægt verður að hitta mann og annan, segja sögur, hlusta á frásagnir og fá sér kaffi í góðum félagsskap. Því mergjaðri sögur, því skemmtilegra.
Þangað til verðum við að láta okkur nægja að fylgjast með framkvæmdum í Skerjafirði, þar er ekki beinlínis slegið slöku við en sitthvað óunnið fyrir vorið.
Síðan eru það félagsfundirnir, fróðir menn segja að þar hafi margt verið brallað í gegnum tíðina, flutt fjölbreytt erindi, jafnvel leikþættir (menn að læra svifflug til að ná sér í konu...). Sumir impra sérstaklega á að ekki hafi meðlætið skemmt fyrir, þar sem betri helmingurinn hafi bakað hnallþórur og borð beinlínis svignað undan kræsingum. O, þeir gömlu góðu dagar!
Við höfum hug á að halda félagsfund fljótlega og ég biðla til ykkar um að leggjast undir feld (ekki of lengi) og koma með ábendingar um málefni næstu samkomu. Eitthvað skemmtilegt, fróðlegt, gagnlegt eða nýstárlegt? Hvað dettur ykkur í hug? Hvaða erindi gæti höfðað til svifflugsmanna? Vinsamlegast sendið mér línu eða sláið á þráðinn.
Með sól í sinni,
Ída