Fyrstu tveir dagarnir voru æfinga- og samhæfingardagar til að kynnast fólki og fé á staðnum, aðlagast hinum mikla lofthita og kvöldlogni og almennri vellíðan að vera langt frá kreppuborg.
Vel var mætt frá Sandskeiði, sumir komu bílandi, aðrir svífandi og enn aðrir á hjálparmótor suðandi um loftin blá.
Steingrímur bösssandi birtist allt í einu á laugardagsmorgun fjórhjólandi og skipaði Ásgeir co-pilot í aftursæti á Whisky-Kassann og vildi óður komast í bössss... einhvers staðar. Meira um það seinna. Einar Ragnars kom á Essinu, kláraði bensínið í Geitamelsbólunni og varð að lenda að lokum. Aðrir afrekuðu ýmsu öðru, svo sem Ída er flaug 3 tíma á Blanik í mishættulegri og erfiðri termik, sem stundum setti Ídu á annan endann. En með góðri tilsögn komst pinninn í fremri stöðu. Allt endaði vel en Tommi var svolítið fúll því Ída káraði alla termik. Ásgeir og Steingrímur bössuðu svo Heklutoppinn þrisvar og Helluflugvöll einu sinni í sama fluginu með lendingu á Hellu.
Á sunnudag komu Skari Jó og tengdasonurinn Jón á Wilgunni til að læra flugtog og aðrar kúnstir á Blanik. Þetta var fyrsta kennsla og vantar svolítið meiri æfingu.
Rúsínan í pylsuendann var svo mánudagurinn 13., þegar 3 alvörusvifflugmenn flugu fyrirfram planaðan 210 km FAI þríhyrning frá Geitamel á Hrauneyjafossvirkjun, síðan Meyjarsæti og lokapunktur var Geitamelur. Þeir luku fluginu með stæl við erfiðar aðstæður heima fyrir.
Þetta voru Ásgeir, Baldur og Daníel Stef. ( Daníel flaug einnig 100 km FAI þríhyrning síðar í vikunni á Hekla Wide Open). Góð byrjun fyrir punkta í árskeppnina.
Vikan var að öllu leyti vel heppnuð.
Með kveðju frá mótsstjórn.