Það ríkti stemming í blíðviðrinu á Sandskeiði í gærkvöldi. Félagsmenn komu á ýmis konar faratækjum, flugvélum og fisum og félagi Magnús var sóttur á Grund af þeim Skúla og Helga.
Þetta var heljarins mikil veisla, vel veitt af veigum, mat og eftirréttum. Ræður voru fluttar ýmsum til heiðurs. Leifur Eysteinn spilaði á trompet með glæsibrag og fór sú athöfn fram undir berum himni, þar sem veðrið lék við mannskapinn. Tommi Waage flutti drápu í tilefni dagsins af sinni einstöku snilld. Völvan Ída fór út um víðan völl í sinni spá. Sjötugir afmælisgestir fengu blóm úr aldingarði formannsins á Sandskeiði, meira hvað allt verður ræktarlegt með kjötmjöli. Árni gjaldkeri og hans fjölskylda veittu mat og drykk af mikilli rausn og brögðuðust húnversku lærin hreint unaðslega.
Pittsinn hans Björns Thor flaug yfir og reykmerkti slóð sína. Steingrímur skellti sér í lágflugi á Fokker yfir Sandskeið og var flottur eins og alltaf. Ætli hann hafi ekki flogið á mettíma til Eyja! Veislunni lauk með hópferð gesta á turnbílnum um velli Sandskeiðs og voru sérstaklega skoðaðir hinir ýmsu ræktunarstaðir s.s. Austursléttan og Kisuvellir.