Á Akureyri ríkir annað veðurfar, gróðurfar og svei mér þá allt annað hugarfar heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Þar er a.m.k. ekki sama stressið. Það var því gott að komast aðeins burt úr borginni um síðustu helgi þegar svifflugmenn lögðu leið sína norður á Melgerðismela.
Hólmgeir og Tómas óku norður og höfðu með sér LS8. Kristján formaður, Stefán og Einar Ragnarsson urðu samferða og tóku með sér Duo Discus. Ída tók með Kristján sinn og yngri soninn Alexander. Baldur Jónsson birtist þarna. Skúli flaug Dimonunni og með í för var Ingólfur. Þegar kom að farartækjum bar Steingrímur líklega af á Hondu mótorfák.
Menn vöknuðu snemma á laugardeginum enda 20 stiga hiti í Eyjafirðinum og nú varð að nýta þennan sumarauka. Stefán og Hólmgeir á Duo Discus náðu 10.000 fetum í fyrsta flugi dagsins, þrátt fyrir nokkra ókyrrð undir 5.000 fetum en þá var líka tóninn sleginn.
Enginn vildi vera minni maður og náðu margir 8 – 9.000 fetum, flugin voru flest á annan tíma að lengd. Svifflugurnar SBT, SBN, SAS , SAX sem og togvélin ABM voru meira og minna á lofti allan daginn. Bræðurnir Ágúst og Gylfi héldu upp á 30 ára sólóafmæli og flaug Gylfi þrjú flug alls rúma sex tíma þennan dag.
Um kvöldið var grillað naut og sýndi annar formaðurinn þar snilldartakta við grillið, spurning hvort nautið hafi verið valið þegar SBT var lent í Hrísey fyrr í sumar. Bragðaðist maturinn vel og runnu veitingar ljúflega ofan í um þrjátíu matargesti. Góður dagur var á enda og forréttindi að fljúga í öðru umhverfi með óviðjafnanlegt útsýni yfir Eyjafjörðinn og síðan þegar svifflugmenn ná að gægjast yfir fjallatoppana sést allt til Herðubreiðar og Langjökuls.
Á sunnudeginum viðraði vel, sólríkt en hvasst. Það var mikið flogið, allt þar til menn urðu að taka saman og halda heim á leið i haustveðrið hinu megin heiða.
Félögum í Svifflugfélagi Akureyrar eru þakkaðar góðar móttökur eins og ávallt.