Svifflugfélaginu farið að leiðast þófið

 

14. ágúst s.l. birtist í Fréttablaðinu grein, þar sem bent er á að Svifflugfélag Íslands íhugar nú að skrá vélar sínar í Svíþjóð. Mjög hefur reynt á langlundargeð svifflugmanna varðandi viðhald og skráningar. Hér má sjá greinina.

Félagar í Svifflugfélagi Íslands hugleiða að skrá svifflugvélar sínar í Svíþjóð. Þeir segja Flugmálastjórn Íslands fara offari í túlkun og framkvæmd nýrra Evrópureglna. Flugmálastjórn segist hafa fullvissu frá Evrópu um að rétt sé farið að.
Svifflugum hefur fækkað um meira en helming á síðustu fjórum árum. "Við vorum með tuttugu og tvær lofthæfar svifflugur fyrir fjórum árum en þær eru innan við tíu núna," segir Kristján Sveinbjörnsson, formaður Svifflugfélags Íslands.
 

Hann segir orsökina vera meðal annars þá að Flugmálastjórn Íslands fari offari í túlkun og framkvæmd nýrra Evrópureglna. Þar á hann við svokallaðar Part M-reglur sem tóku gildi síðla árs 2009. Samkvæmt þeim fer fram skoðun hér á landi sem fáar svifflugvélar hafa staðist og segir Kristján að Flugmálastjórn geri meiri kröfur en reglurnar sjálfar geri ráð fyrir.

"Við bárum fjögur atriði sem Flugmálastjórn taldi vera kyrrsetningarsök undir EASA, European Aviation Safety Agency, og

þar svöruðu menn á þá lund að þrjú væru ekki kyrrsetningarsök og eitt atriði mætti túlka á mismunandi vegu," segir hann. Hann segir enn fremur að tekin verði ákvörðun um það á fundi félagsins í haust hvort félagsmenn skrái vélar sínar hjá annarri Evrópuþjóð. Þá kæmu eftirlitsmenn hingað til lands til að taka vélarnar út.

"Já, við höfum verið að velta því fyrir okkur að skrá þær þar sem viðhorf gagnvart svifflugum er annað. Við höfum rætt við Svía um þau mál og þar er búið að bjóða okkur velkomna," segir hann. Þó reglurnar séu alls staðar þær sömu segir hann það geta verið misjafnt hvernig þær eru túlkaðar og útfærðar.

"Ég veit að það hefur verið flótti frá Belgíu yfir til Þýskalands vegna slíkra mála," segir hann.

"Við höfum líka átt fundi með EASA og úttektaraðilum þar og þar hefur komið alveg skýrt fram að við stöndum rétt að," segir Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugmálastjórnar. "Það er náttúrulega alltaf leiðinlegt ef það er skráð annars staðar en á Íslandi en telji þeir að það verði til hægðarauka þá getum við ekkert stöðvað það."

Kristján segir mikið í húfi. "Þetta er nú bara sjálfboðavinna hjá okkur en ef við ættum að fullnægja þeim kröfum sem Flugmálastjórn setur okkur alveg út í ystu æsar þá þyrftum við að hafa einn til tvo starfsmenn bara til að sinna þessari pappírsvinnu," segir hann. "Því höfum við ekki efni á svo það er verið að kippa grundvellinum undan félaginu."

jse

(Birt með leyfi höfundar)