Vegna tilkynningar frá Flugmálastjórn sem m.a. er á heimasíðu Flugmálastjórnar gerir Svifflugfélagið alvarlegar athugasemdir og leiðréttir rangfærslur stofnunarinnar.
Varðandi mál Svifflugfélagsins þá er kolröng sú fullyrðing Flugmálastjórnar að í áratugi hafi verið skylt að nota aðeins vottaða hluti í loftför. Sú regla tók gildi þann 28. sept. 2009 og á aðeins við um svokölluð EASA loftför. Þessi regla um vottaða varahluti á ekki heldur við um eldri flugvélar, heimasmíði eða fis en þessir flokkar loftfara eru vel yfir helmingur flugflotans.
Þá mótmælir Svifflugfélagið fullyrðingu Flugmálastjórnar að ekki hafi verið til staðar gögn sem sýna fram á að notaðar séu viðurkenndar aðferðir við breytingar og viðhald á svifflugum Svifflugfélagins. Þessi fullyrðing er röng, öll gögn eru til staðar og voru til staðar við úttekt.
Vakin er athygli á að reglurnar tóku að fullu gildi 28. sept. 2009. Á síðasta ári sá Flugmálastjórn Íslands um að votta ástand loftfara og gerði úttekt á m.a hinu tiltekna loftfari og skrifaði það út. Þá sá Flugmálastjórn enga ástæðu að gera athugasemdir við verklagið en skyndilega nú eru sömu atriði sem Flugmálastjórn skrifaði upp á grándunaratriði. Líklega má gránda allar flugvélar af sömu ástæðu. Gagnrýni Flugmálastjórnar á við þá sjálfa.
Skýrar Evópureglur heimila að fast tengt GPS tæki sé um borð í okkar flokki loftfara. Flugmálastjórn hafnar þeim reglum og segir kyrrsetningarsök að hafa tækið um borð. Þess var krafist að GPS festingar ásamt rafleiðslum verði fjarlægðar svo stofnunin gæti heimilað eitt stutt einstakt ferjuflug.
Athygli vekur að Flugmálastjórn svarar fjölmiðlum á sunnudegi, en Svifflugfélagið hefur beðið eftir svörum frá stofnuninni við einföldum spurningum frá því í vor og þrátt fyrir fjölmargar ítrekanir fást engin svör.
Líklega hafa flest aðildarríki fengið eða ættu að hafa fengið athugasemdir frá Flugöryggisstofnun Evrópu vegna innleiðinga á nýjum viðhaldsreglum um almannaflug. Fá eða engin ríki hafa farið stíft eftir tilskipunum Flugöryggisstofnunar Evrópu um innleiðingu viðhaldsreglna enda hafa mörg þeirra talið innleiðinguna illframkvæmanlega.
Sú athugasemd sem ísl. Flugmálastofnunin fékk var vegna þess að Flugmálastjórnin hækkaði viðmiðunarmörk svokallaðra CAMO skoðana úr 1000 kg í 1200 kg. Ástæðan er að aðeins einn aðili í Íslandi gat sinnti þessum skoðunum og mikill fjöldi flugvéla er um 1000 kg. Margar nær eins vélar gátu lent báðum megin við mörkin. Þá er í undirbúningi hjá EASA að hækka þessi mörk upp í 1200 kg en svo virðist sem mistök hafi verið gerð við að miða við 1000 kg. Flugmálastjórn er þakkað fyrir að færa þessi mörk upp.
Svifflugfélag Íslands