Fyrir þó nokkru var viðruð sú ósk við undirritaða að ritstýra þessari síðu. Með því að fá beinan aðgang nú um mánaðamótin er það mögulegt og í góðri samvinnu við þá feðga, Friðjón og Bjarna, ætti nýtt efni tengt svifflugi að líta dagsins ljós í sumar.
Ætlun mín er að birta fyrirhugaða viðburði, gjaldskrána, einfaldar upplýsingar sem auðvelda ókunnugum að finna Sandskeið, setja saman fróðleik um umhverfið, minna á nýtt aðsetur fluglækna, bæta við upplýsingar um vélarnar, vísa á handbók viðeigandi tegundar, setja upp dálk, þar sem má auglýsa svifflugur eða annað tengt sportinu og nálgast það sem menn vanhagar um, setja inn svokallaða ,,Vertu velkomin möppu” enda margir sem hafa augastað á svifflugi, safna ólíku efni af netinu og er þá fátt eitt nefnt. Bók Einars Ólafssonar verður auk þess hér og eru honum færðar bestu þakkir fyrir velvildina.
Því miður hefur veðrið (hægra megin á síðunni), eins og það var, dottið út en við ráðgerum að geta tengst nýja veðurmælinum og þær upplýsingar verða vonandi aðgengilegar fyrr en seinna.
Sumt af ofantöldu er komið á síðuna, annað hef ég þegar sent ,,tæknideildinni”, reyni auðvitað að setja sem mest inn sjálf en mun án efa leita til mér fróðari manna með einhver skrif og vonast til að fá góðar undirtektir.
Það er ljóst að um efnistök og umfang svifflug.com má segja að þetta er eins og með svifflugið, hér er fært til allra átta, sem gerir verkefnið spennandi og allar ábendingar vel þegnar.
Ennfremur hvet ég ykkur til að lesa ,,Vertu velkomin/n” greinina hans Skúla, sem má finna undir ,,Pistlar” (vinstra megin á forsíðunni). Hún hefst á orðunum: ,,Það fer upp mann fiðringur...”.
Kveðja,
Ída