Fegursta íþrótt sem til er

 

Haldið var uppá 75 ára afmæli Svifflugfélags Íslands á sólríkum degi. Þrátt fyrir svolítinn gust var talsvert fjölmenni. Minnisvarði til heiðurs Agnari Kofoed-Hansen aðalhvatamanns að stofnun Svifflugfélagi Íslands var afhjúpaður. Agnar Kofoed-Hansen var fyrsti formaður félagsins. Á minnisvarðanum er lágmynd og m. a. ummæli A. K.-H. um að svifflug sé fegursta íþrótt sem til er. Gullmerki voru afhent Þórmundi Sigurbjarnasyni, Sverri Thorlákssyni og Þorgeiri Pálssyni. Verðlaun voru afhent fyrir besta árangurinn á Íslandsmótinu, í fyrsta sæti var Steinþór Skúlason, í öðru sæti Kristján Sveinbjörnsson og því þriðja var Daníel Stefánsson. Eftir kaffi flugu ýmsar vélar þar sem menn sýndu listir sínar.

Magnús Norðdahl kom á Zlin-inu sínu og sýndi listflug, Benni Thors kom á Þristinum og flaug listavel í hanginu. Þetta er án vafa fyrsta og ef til vill eina sinn sem DC 3 flýgur hangflug í Vífilfelli. Þarna var greinilega maður sem þekkti umhverfið vel. Síðar kom Benni Thors aftur og nú á Pits vélinni og sýndi ýmsar kúnstir. Þannig sóttu margir félagið heim, akandi og fljúgandi. Bæjarstjórinn í Kópavogi flaug með Krisjáni formanni og var í skýjunum, þótt hún væri lent og hafði reyndar haft orð á því fyrr um daginn að þetta væri eini flugvöllurinn í Kópavogi.

Ída

Myndirnar tók Kristján A. Jakobsson.