Startstjóri vikunnar dreif sig upp á Sandskeið á mánudeginum, langeygð eftir að komast í svifflug og hætta að mála gluggapósta og endalausa verönd. Það má svo sem ljóstra því upp hér að ég bjóst satt að segja við sólbrúnum gæjum (með Ray Ban) óþolinmóðum eftir að komast í flug. Það var líka nákvæmlega fyrsta sjón sem mætti mér en hitt kom á óvart að menn eru orðnir góðu vanir, þegar ekki kemur til greina að fljúga í S 3/m og menn frekar óþolinmóðir að komast heim...
Um þriðjudag segir fátt enda spáin fyrir þann dag á þennan veg:
Hafi flugin verið í það stysta á miðvikudegi, þegar vindar blésu lítt og uppstreymi hvergi, þá voru flug í það lengsta næsta dag, þ.e. menn voru kallaðir niður, alveg miskunnarlaust, því miður. Sumir fóru létt með að ná 5oo m á spilinu enda hvasst. Kalli skellti sér í 5000 fet og var snöggur að því. Yfir fáu að kvarta nema kulda. Nú var bara að leita að húfu, vettlingum og föðurlandi og mæta betur búin næst.
Föstudag flaug Helgi Róbert Bjarnason (Friðjónssonar, hvaðan svifflugsgen piltsins koma) sitt fyrsta sóló. Það er stór áfangi að fljúga einn en A-próf fæst eftir fyrsta einflug og veitir rétt til að fljúga á æfingasvæði undir eftirliti kennara.
Skúla yfirkennari leggur línurnar fyrir sólóið.
Yfirkennarinn nælir A-merkið í Helga Róbert.
Myndirnar tók Sigurberg af þeim félögum við þetta tækifæri. Fleiri flugu þetta föstudagskvöld, s.s. Bjarki og Brynjólfur, báðir 14 ára og efnilegir svifflugsmenn. Um helgina viðraði ekki til svifflugs.
Vinnuliði vikunnar er þakkað vel unnið starf en ljóst er að formaður og yfirkennari verða að drífa sig í að klóna bæði spilara og kennara, því slök var mætingin þessa viku og mikið sem mæðir á fáum mönnum og af því verða þeir lúnir.
Kveðja, Ída.