Þarna er ég tilbúinn í næsta flug, og beið eftir að komið væri með slef-vírinn. Á hinum enda flugbrautarinnar var bílinn með spilið sem dró Æ-ið upp.
Um svifflugnámskeið á Sandskeiði í júní 1945
eftir Óskar Jóhannsson, Reykjavík.
Fimmtudaginn 17. desember 1903 gerði Orville Wright það sem engin maður hafði áður gert. Hann flaug vélknúnu farartæki. Mótvindur var um 40 km á klukkustund. Flugtíminn var 12 sekúndur og vegalengdina sem flogin var, 36 ½ metri. Þann dag hófst öld flugsins.
Árið 1945 var ég á svifflugnámskeiði á Sandskeiði. Allir stefndum við nemendurnir á vélflugnám og vissum að svifflugkunnátta væri mjög góður undirbúningur fyrir það. Nú fimmtíu árum eftir námskeiðið, er liðinn lengri tími en þá var frá upphafi flugsins. Mér datt því í hug að festa á blað nokkur minningarbrot frá námskeiðinu, ef það mætti koma í veg fyrir að þessi stutti kafli úr sögu flugsins á Íslandi gleymdist alveg, og enn fremur ef einhver sem til þekkir hefði gaman af. Eins og allir aðrir höfðum við Njálsgötustrákarnir mikinn áhuga á flugi. Umsvifin á Reykjavíkurflugvelli, og fréttir af þætti flugsins í stríðinu gáfu okkur næg umhugsunar – og umræðuefni. Draumurinn um að eiga eftir að fljúga sem farþegi í flugvél einhvern tíma á ævinni gæti kannske orðið að veruleika, en að verða sjálfur flugmaður var auðvitað langt fyrir ofan og utan um það allt saman.
Svifið á Sandskeiði
Kl. 8.00 um morguninn 15. júní 1945 vorum við um 20 strákar mættir við Ingólfsstyttuna á Arnarhóli með svefnpoka og fatnað til tveggja vikna dvalar á Sandskeiði. Ég var nýlega orðinn 17 ára og hinir strákarnir flestir 17-20 ára. Rútan kom á tilsettum tíma og manni þótti þetta töluvert ferðalag, alla leið upp á Sandskeið. Fyrsti dagurinn fór aðallega í að koma sér fyrir og skoða sig um. Fram eftir degi bættust fleiri við á Sandskeiðið, því annað námskeið fór þar fram á sama tíma. Eldri félagar höfðu keypt Luscomb kennsluflugvél, TF-KAB og fengið Georg Torberg til að kenna sér vélflug. Einn þeirra var Magnús Norðdahl. Við nýliðarnir litum mjög upp til þeirra eldri og fræddumst mikið af þeim um flugið og allt því viðkomandi. Þeir sögðu okkur frá fyrstu árum Svifflugfélagsins en um þetta leyti var það 9 ára. „Já strákar mínir. Þetta er algjör lúxus á við það sem þá var.“ Fluginu fylgir alltaf einhver léttleiki. Þetta voru kaldir og hressir strákar og strax skapaðist einstaklega gott andrúmsloft og mikið hlegið. Tvær stúlkur voru nemendur á svifflugnámskeiðinu, Hulda, systir Helga Filippussonar kennarans, og vinkona hennar Ólöf. Auk þess sem þær stóðu sig vel í fluginu, sáu þær um alla matreiðslu við erfiðar aðstæður fyrir alla þessa sísvöngu stráka, en þeir fengu til skiptis að vaska upp og sækja vatn í djúpa holu úti í hrauni.
Eins og sjá má af lýsingunni á „teyjustartinu“ á Reykjavíkurtjörn, var mikil vinna að koma 20 strákum á loft eftir að búið var að segja hverjum og einum hvernig hann ætti að stjórna svifflugunni. – En það var langt frá því að alltaf viðraði til flugs. Aðal driffjöðrin, kennarinn og stjórnandinn var Helgi Filippusson. Hann hafði lært svifflug í Þýskalandi fyrir stríð. Helgi og fjölskylda hans voru mikið flugáhugafólk og heima hjá þeim í Selási, fór fram öll nýsmíði og meiri háttar viðgerðir á svifflugum. Kjartan Guðbrandsson og Árni Ólafsson kenndu okkur líka. Grindin með vængjunum og stélinu var eina tækið sem við byrjendurnir höfðum afnot af. Hún gekk undir nafninu Æ-ið. Stjórntækin voru ein stöng sem hæðinni og hallanum var stjórnað með og fótstig til að stjórna hliðarstýrinu. Það virkaði öfugt við stýri á reiðhjóli, þannig að ef maður ætlaði að beygja til hægri var hægri fóturinn settur fram. Þær voru margar skrautlegar fyrstu flugferðirnar og merkilegt að enginn skyldi meiðast, en mjög ríkt var tekið fram við okkur að halda fótunum á fótstigunum hvernig sem lendingin yrði. „Reynið ekki að stöðva jörðina með því að setja löppina út, það eru margir búnir að reyna það og það hefur alltaf mistekist og muna alltaf mistakast.“ sagði Helgi kennari. Hvert flug var skráð í sértaka flugbók, sekúndur í lofti og vegalengd sem flogin var. Eftir nokkur teygjustört tók við spilstart. Spil eða vinda með stóru vírkefli hafði verið sett aftan á gamlan vörubíl í staðinn fyrir pallinn. Hann stóð á brautarendanum og búkkar undir afturhjólunum sem voru tengd við keflið. Mjög langur grannur stálvír, sem náði út á hinn enda brautarinnar var festur í krók framan á svifflugunni. Svo var allt sett í botn, bíllinn nötraði með ógurlegum hávaða. Svifflugan þaut upp og þegar Helgi veifaði flaggi, beindi flugmaðurinn henni niður og kippti í snúru sem sleppti vírnum. Þá var hún komin í það mikla hæð að hægt var að hafa góða stjórn á henni og taka beygjur sem voru fyrirfram ákveðnar. Hver þraut sem var sómasamlega leyst af hendi, gaf stig eða skilyrði í A-prófið. Fljótlega komust strákarnir upp á að „stela hæð“. Það var að sleppa ekki strax þegar Helgi flaggaði og þá fengu menn betri tíma út úr fluginu, en ekki mátti hægja á spilinu fyrr en búið var að beina svifflugunni niður og sleppa vírnum. Þótt margir dagar féllu úr sem ekki var hægt að fljúga vegna óhagstæðra veðurskilyrða, voru flestir farnir að nálgast A-prófið þegar námskeiðinu lauk og nokkrir tóku það seinna um sumrið. Fyrir B-prófið þurfti að leysa fleiri og flóknari þrautir, ennþá erfiðara var C-prófið sem var fullnaðarpróf. Æðsti draumur svifflugmanns er Silfur-C, og meðal skilyrða í það próf er að vera 5 klukkutíma í lofti í einu, komast í 100 metra hæð og fljúga 50 km vegalengd í beinni loftlínu. Fyrstu Silfur-S prófin á Íslandi voru ekki tekin fyrr en 1949. Það gerðu Magnús Guðbrandsson og Matthías Matthíasson.
Ýmis atviku sem áttu sér stað á þessum júnídögum fyrir hálfri öld, sitja enn í huga mínum. Ég átti myndavél og læt nokkrar myndir fylgja.
STANGARSTÖKK Á SVIFFLUGU
Ógleymanleg er fyrsta flugferð eins nemandans, sem auðvitað var teyjustart. Um leið og vélin skaust á loft, tók hann heldur gróflega í stýrisstöngina og Æ-ið fór mjög hratt upp, og missti alla ferð. Þá skellti hann stönginni fram, sleppti henni og hélt sér með báðum höndunum í bitann framan við sætið, þá steyptist hún niður og stefndi á annan hópinn sem togaði í teygjuna. Strákarnir hlupu í dauðans ofboði og svifflugan kom niður á annan vængendann nokkru fyrir aftan þá. Því næst skall hún á nefið og yfir á hinn vænginn. Áður en svifflugan stöðvaðist hafði flugmaðurinn losað sig með því að kippa í öryggislæsinguna á beltinu og tók til fótanna á eftir hópnum. Hann var orðinn fremstur þegar þeir stöðvuðust. Ég var einn þeirra sem héldu í stélið á svifflugunni. Við horfðum skelfingu lostnir á þessar hamfarir, en þegar kappinn tók til fótanna ómeiddur og þaut fram úr flóttamannahópnum, fengum við svo mikið hláturskast að tveir úr hópnum viðurkenndu að þeir hefðu bleytt buxurnar. Það var ófrávíkjanleg regla að tala ekkert um það, þótt einhverjum helltist á, en nemandinn sagðist hafa gleypt svo mikið loft þegar hann fór svona snöggt upp, að honum svelgdist á. Það varð að samkomulagi á milli hans og Helga, að í næsta starti ætlaði hann aðeins að fljúga morguninn eftir. Þetta voru ekki einu skrámurnar sem Æ-ið fékk á þessum tveimur vikum.
GUÐMUNDUR „ÁSABRÓÐIR“ FÓR YFIR KATTARHRYGG
Það var strekkingsvindur og of hvass til að við byrjendurnir gætum æft okkur. Einn af „gömlu“ félögunum, Guðmundur Baldvinsson (stofnaði og rak Mokkakaffi í áratugi), fékk slef-start á Æ-inu og ætlaði að nota sér uppstreymið við Vífilsfell. Hann fór heldur langt yfir Kattarhrygg sem skagar út úr fjallinu og lenti í hringiðunni og niðurstreyminu handan við hæðina. Við stóðum allir á hlaðinu og horfðum á flug Guðmundar og sáum Æ-ið sviptast til, og steypast á mikilli ferð niður á bak við hæðina. Allur hópurinn hljóp sem fætur toguðu og óttaðist að hörmulega sjón blasti við handan hæðarinnar. Þegar við komum þangað, móðir og másandi, hafði Æ-ið stungist inn í moldarbarð, vængirnir brotnað af, en Guðmundur stóð álengdar óskaddaður og var að skoða skemmdirnar. Ólarnar sem spenntar eru yfir mitti og axlir flugmannsins slitnuðu við höggið og Guðmundur hentist út, til hliðar við bitann sem er beint framan við sætið. Þá þurfti allur hópurinn að bera vélina í þrennu lagi niður í matskálann. Gísli Sigurðsson sem gerði við allt, fór strax að splæsa víra sem slitnuðu, líma og bæta allt sem brotnaði og rifnaði, og því lauk um miðja nóttu, og nú þurfti að kynda mjög mikið svo límið þornaði fyrir morguninn. Nokkrir strákanna sváfu í svefnpokum á gólfinu í matsalnum. Vængirnir tóku mikið pláss, svo einn tók það ráð að sofa uppi á borðinu. Þegar við, sem sváfum í hálfkláraða flugskýlinu, komum til þeirra um morguninn var kæfandi hiti hjá þeim og erfitt að vekja þá. Sá sem svaf á borðinu var nánast meðvitundarlaus. Við bárum hann í svefnpokanum út á hlað og það rauk úr honum. Eftir það fékk hann nafnið „Yfirliðinn“. Hann var ágætlega hagmæltur og orti ennþá betur eftir þennan atburð. Æ-ið var tilbúið til flugs um morguninn, og þótt böndin slitnuðu utan af Guðmundi, hafði það ekki slæm áhrif á raddböndin, því seinna fór hann til Ítalíu og lærði söng með góðum árangri og hélt margar og vel sóttar söngskemmtanir. Guðmundur var kallaður Ásabróðir, því Ásbjörn Magnússon einn af frumkvöðlum svifflugsins var hálfbróðir hans.
Sunnudagsmorguninn 17. júní fengum við Andrés far með bíl niður í bæ, til að taka þátt í skrúðgöngu Ármenninga vestur á Íþróttavöll. Hann æfði frjálsar íþróttir, en ég fimleika. Hópmynd var tekin í Miðbæjarskólaportinu, áður en gengið var þaðan fylktu liði. Ég er til vinstri í aftari röð fimleikahópsins, en Andrés er fjórði til vinstri í öftustu röð frjálsíþróttamanna (mynd vantar).
MENNINGARMÁLIN: TÓNLIST OG BLAÐAÚTGÁFA
Synd væri að segja að menningarmálunum hafi ekki veri sinnt sómasamlega innan þessa litla samfélags á Sandskeiði, enda leyndust þar miklir hæfileiksmenn á ýmsum sviðum. Hallgrímur Jónsson, sem var á vélflugnámskeiðinu kom með trompet og bróðir hans, Árni með klarinett. Eitt af fyrstu kvöldunum spiluðu þeir fyrir okkur við góðar undirtektir. Andrés vinur minn, sagði þá við Elinberg Konráðsson að slæmt væri að hann hafi ekki komið með gítarinn. Helgi heyrði þetta og sagði að þá þyrfti að drífa í að ná í hann. Það varð úr að við færum þrír í bæinn að sækja hljóðfærið. Við fórum út á veg og veifuðum bíl, en þá lá þjóðvegurinn rétt hjá húsunum. Þá þótti sjálfssagt að taka menn upp í ef pláss var í, eða eins og oft var, aftan á bílum. Við komum í bæinn um kl. 10 um kvöldið. Lalli bjó á Laufásvegi en við Addi á Njálsgötu. Ákveðið var að Lalli kæmi upp á Njálsgötu kl. 11. Við vissum að við yrðum að ganga inn að Elliðaám og treystum á að geta fengið far þaðan. Við vissum ekki þá að eftir miðnætti fór enginn bíll austur fyrir fjall þessa nóttina, svo við urðum að ganga alla leiðina og komum uppeftir kl. 3 eða 4 um nóttina. Veðurblíðan var ógleymanlega þessa björtu júnínótt og taktfastir tónar og léttir söngvar Lalla gerðu hana eftirminnilega, og nú var tónlistarlífinu vel borgið á Sandskeiði.
SKÝJAGLÓPUR
Fyrir utan tónlistariðkunina var gefið út fjölritað blað sem hlaut nafnið „Skýjaglópur“. Strákarnir fundu gamlan fjölritara og stensilvél og gátu tjaslað því saman. Eldsnemma næsta morgun kom fyrsta blaðið út, myndskreytt af Eiríki Smith. Svo mikill asi var á fréttamönnunum að þeir gáfu sér ekki alltaf tíma til að bíða eftir að atburðir gerðust, og veru jafnvel búnir að segja frá þeim áður. Þeir voru á undan sinni samtíð. Nýjar útgáfur af fréttum frá síðustu dögum stríðsins í byrjun maí þurftu auðvitað að fylgja með. Þá var barist um hvert hús í Berlín og skírði blaðið frá því að einn daginn hafi bandamenn sótt fram um tvö herbergi og aðgang að eldhúsi. Mikil leit var gerð að líki Hitlers um það leyti. Fundist höfðu 6 lík, sem átti að kanna hvort eitt þeirra gæti verið af Hitler. Í Skýjaglópi kom fréttin á þessa leið: Fundist hafa sex lík af Hitler eru nú aðeins fjögur eftir. Þegar þrjú tölublöð höfðu komið út af blaðinu, bilaði fjölritarinn endanlega. Um haustið komu út 2 blöð í Reykjavík og í öðru þeirra var sagt frá þegar fyrsta blaðið kom út, og Helgi Filippusson, kennarinn sem hafði sofið heima hjá sér þessa nótt, fékk það sent með flugvél í rúmið – eða þannig niður í Selás. Það sýndi að dreifingarkerfið var áratugum á undan sinni samtíð.
DÍNAMÍT
Bretar sprengdu upp allt Sandskeiðið til að þýskt innrásarlið gæti ekki lent þar. Það var því fullt af sprengjugígum nema þar sem búið var að jafna fyrir flugbrautina. Í botni eins gígsins fundum við nokkrir strákar heila kassa af dínamíti. Kassinn sjálfur var reyndar brotinn en 24 gulir pakkar voru í gígnum og auk þess um það bil hálfur kveikjuþráður með hvellhettu. Einn strákurinn var með eldspýtur, stakk hvellhettunni í einn pakkann, stillti honum á gígbarminn og kveikti í. Við hlupum allir í burtu og köstuðum okkur niður. Það slokknaði fljótlega í þræðinum. Annar strákur kveikti næst og eins fór hjá honum. Kveikurinn var orðinn mjög stuttur þegar dæmdist á mig að reyna næst.
Strákarnir lágu á maganum í 30-40 metra fjarlægð þegar ég kveikti í þræðinum, sem var nú ekki nema þriggja sentímetra langur. Hann byrjaði að fuðra upp með ógnar hraða og þá var ég víst heldur skjálfhentur þegar ég ætlaði að leggja hann frá mér, því dínamítpakkinn með hvellhettunni í, hvarf niður í gíginn til hinna tuttugu og þriggja pakkanna. Á sekúndubroti sló niður í huga mér, að fyrst ein dínamít sprengja hafi gert þennan gíg, hvað myndu 24 sprengjur gera? Var ég að drepa okkur alla með þessum bölvaða asnaskap?
Ekki þarf að taka fram að aldrei hef ég orðið eins hræddur, og aldrei hef ég hlaupið eins hratt. Þó var ég ekki kominn nema hálfa leið til strákanna þegar hvellur heyrðist úr gígnum, lítið hætti en af Kínverja. Eftir langan tíma áræddum við að kíkja niður í gíginn og sáum að hvellhettan hafði dottið út úr dínamítpakkanum á leiðinni niður í gíginn og sprungið þar, í nógu mikilli fjarlægð frá dínamítinu. Þegar við höfðum gert okkur grein fyrir hvernig forsjónin bjargaði okkur frá afleiðingum þessa háskalega leiks, skömmuðumst við okkar svo mikið, að ég held að enginn hafi sagt frá þessum atburði fyrr en nú, fimmtíu árum seinna (skráð 1995).
AÐ BRJÓTA SAMAN FALLHLÍF
Okkur fannst hann vera gamall þá, hann Gísli Sigurðsson sem alltaf var að vinna. Ef eitthvað bilaði, var það Gísli sem smíðaði hvað sem var og var töframaður í öllu sem viðkom flugvélum. Við bárum mikla virðingu fyrir Gísla, ekki síst vegna þess að hann var annar tveggja íslendinga sem við vissum um, sem höfðu réttindi til að brjóta saman fallhlífar. Hinn var einn af námskeiðsstrákunum, Eiríkur Smith, sem nú er þekktur listmálari og lífgaði upp á Skýjaglópinn með myndum sínum. Það voru yfirmenn í ameríska og enska hernum sem kenndu þeim fallhlífarbrotin. Eiríkur spurði annan þeirra hvernig prófið færi fram. „Það er mjög einfalt og öruggt,“ sagði Bretinn, „Þú ert látinn stökkva út úr flugvél í fallhlíf sem þú hefur brotið saman sjálfur. Ef hún opnast ekki, fellur þú. „Ekki þurfti að efast um að báðir hafi þeir staðist prófið.
Nú, fimmtíu árum seinna (1995), er Gísli ennþá að, og vinnur við að endursmíða Ólumpíu, fyrstu íslensku sviffluguna, og áhugasamir samstarfsmenn hans eru að endursmíða Avro – flugvélina frá 1919.
VÉLFLUGNÁMSKEIÐIÐ
Eins og fyrr segir lífguðu eldri og reyndari félagarnir á vélflugnámskeiðinu mikið upp á tilveruna á Sandskeiðinu. Þeim gekk vel á sínu námskeiði þar til TF-KAB nauðlenti á Þingvöllum og skemmdist eitthvað. Vængirnir voru teknir af henni, og hún flutt upp á Sandskeið. Ég held að hún hafi ekki verið komin í gang aftur þegar svifflugnámskeiði okkar lauk.
Eftir svifflugnámskeiðið hafði flugáhugi okkar Andrésar aukist um allan helming. Flugskóli Konna Jóhannssonar í Kanada hafði útskrifað marga íslenska flugmenn og nú lá beinast fyrir að kanna möguleikana á að komast þangað. Frændi Andrésar var Richard Beck prófessor í Ameríku, sem hafði verið hér við lýðveldisstofnunina árið áður. Við skrifuðum Richard Beck og báðum hann að athuga með skólavist og kostnað hjá Konna. Um haustið kom svar frá Richard. Við gátum komist í skólann næsta vor og eftir tvö ár yrðum við útskrifaðir sem atvinnuflugmenn. Allur kostnaður á mann var um 20.000 krónur. Það samsvaraði meiru en tveggja ára laununum mínum, og var svo há upphæð að útilokað var að láta sig dreyma um að gerast flugmaður. Þótt margir aðrir yrðu að sætta sig við svipaðar aðstæður og ég, varð það töluverður hópur sem gerði flugið eða störf því tengdu, að ævistarfi sínu. Flugslysin hjuggu þó stórt skarð í þann hóp, einkum á fyrri árum þegar tæknin og öryggismálin stóðu langt að baki því sem nú er. Draumur minn um að verða farþegi í flugvél, og það meira að segja til útlanda rættist þó ótrúlega fljótt, eða rúmlegar ári eftir námskeiðið. Bresku samvinnufélögin héldu fyrstu alþjóðamót ungra samvinnumanna í Bexhill-on-sea við Ermasund í ágúst 1946. Tveimur til þremur fulltrúum samvinnufélaga 12 landa, á aldrinum 18-21 árs var boðið á mótið ásamt um 60 unglingum á sama aldri frá Bretlandseyjum. Þá vann ég í Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis (KRON), á Vesturgötu 15, og var sendur sem fulltrúi KRON, og Guðmundur Björnsson frá Kópaskeri sem fulltrúi Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS), Íslendingar höfðu þá samið við Scottish Airlines um að senda flugvél einu einni í viku sem tæki farþega milli Reykjavíkur og Prestwick. Librator-sprengjuflugvél hafði verið breytt til farþegaflugs, og laugardaginn 17. ágúst flugum við Guðmundur ásamt sex öðrum farþegum frá Reykjavíkurflugvelli til Prestwick og tók flugið fjóra tíma. Hins vegar tók það okkur fimm tíma að komast út úr tollinum þótt engar athugasemdir væru gerðar við okkur, en farþegar með vél frá öðru landi, sem komu á undan okkur, þurftu mikil afskipti tollvarða og lögreglu, því stríðsglæpamenn með fölsuðu skilríki voru mikið á ferðinni þá. Tveimur vikum seinna komum við Guðmundur aftur með sömu vél, eftir ótrúlegt ævintýri, en það er önnur saga.
Ein af teikningum hans Eiríks Smith, sem lífguðu upp á Skýjaglóp.
Á Reykjavíkurflugvelli 17. ágúst 1946.
Með Liberator-sprengjuflugvél til Skotlands.
Sigurður Friðriksson