Fundargerð aðalfundar 2024

Aðalfundur Svifflugfélags Íslands 2024 var haldinn í Harðarskála að Sandskeiði laugardaginn 11. maí 2024 kl. 10.00

Kæru félagar.

Aðalfundur félagsins var haldinn 11. maí á Sandskeiði.

Samkvæmt lögum félagsins skal fundargerð send fundarmönnum eða birt á heimasíðu félagsins innan tveggja vikna frá fundi. Fundarmenn hafa tvær vikur til að gera athugasemdir við hana.

Aðalfundur Svifflugfélags Íslands 2024

Aðalfundur Svifflugfélags Íslands 2024 var haldinn í Harðarskála að Sandskeiði laugardaginn 11. maí 2024 kl. 10.00.   Daníel Snorrason formaður bauð fundarmenn velkomna, setti fund og mælti með Friðjóni Bjarnasyni sem fundarstjóra.    Var það samþykkt með lófaklappi.  Fundarstjóri lagði til að Ólafur Briem ritaði fundargerð og var það einnig samþykkt samhljóða. Fundarstjóri úrskurðaði svo fundinn löglegan eftir að hafa gert athugun á því.  Þessu næst óskaði fundarstjóri eftir því að taka inn dagskrárlið með afbrigðum um inntöku nýrra félaga nú strax í upphafi fundar þannig að þeir yrðu gjaldgengir til stjórnarkjörs á þessum sama fundi.  Um væri að ræða í öllum tilfellum einstaklinga sem hefðu sýnt félaginu áhuga í nokkuð langan tíma og fyllsta ástæða til að greiða götu þeirra inn í félagið.  Var það samþykkt samhljóða.  Bar nú formaður upp eftirfarandi nöfn til inntöku: Kristín Sveiney Baldursdóttir, Liam O´Malley og Gonsalo Valverde með fyrirvara um að hann sækist eftir því að gerast félagi.  Gerðu fundarmenn engar athugasemdir við þessa inntöku og skoðast þau því sem félagsmenn SFÍ.

Skýrsla formanns.

Formaður gerði grein fyrir helstu verkefnum vetrarins og því sem stæði fyrir dyrum.  Nefndi hann í því sambandi endurnýjun á sláttutækjum, málningarvinnu, gerð upplýsingaskiltis, rekstur flug- og flugtengdra tækja og þess háttar.  Skýlisleiga vetrarins gekk vel og minnti formaður á að hún stæði undir stórum hluta tekna til hagsbóta fyrir félagsmenn.  Þá kom fram að Gunnar Thorarensen frá Samgöngustofu hafi nýlega haldið fræðslufund fyrir kennara um flugreglur í vor.  Einnig minntist hann á að norræni svifflugfundurinn verður haldinn í haust á Íslandi og þyrfti að undirbúa búa hann vel.  Formaður hefur þegar falið Kristjáni Sveinbjörnssyni að annast umsjón og skipulagningu fundarins.  Að lokum hafa borist þau tíðindi frá Kópavogsbæ að Sandskeið verður ekki deiliskipulagt um sinn og taldi formaður að ávalt þyrfti að gæta vel að hagsmunum félagsins gagnvart skipulagsyfirvöldum.  Skýrsla formanns var samþykkt samhljóða.

Skýrsla gjaldkera.

Kristján Jakobsson gjaldkeri fór yfir niðurstöðu reikninga.  Staldrað var við ýmsa liði m.a. góðar tekjur af skýlisgeymslu, og góðan vöxt í flugtekjum milli ára.  Hinsvegar drógust tekjur af Dímónu saman.  Kostnaður vegna dráttarflugvélar hækkaði mikið milli ára, sömuleiðis viðhaldskostnaður véla og tækja og almennur rekstur á flugvélum.  Þá kom fram að töluverður halli væri á rekstri togflugvélar en góður hagnaður af spilinu.  Einnig var rædd ný vefsíða félagsins og innheimta viðskiptakrafna sem hefur gengið vel. Að lokum nefndi gjaldkeri lágar vaxtatekjur af veltufjármunum og þar mætti gera betur.  Þyrfti jafnvel að fá úrskurð aðalfundar um leiðsögn og heimild til fjárfestinga í peningalegum eignum.  Í kjölfarið ræddu menn, að hversu miklu leiti mætti eignfæra stóran viðhaldskostnað.   Árni Jóhannsson fyrrverandi gjaldkeri kvaddi sér hljóðs.  Vakti hann athygli á hækkandi meðalaldri félagsmanna, erfiðari rekstrarskilyrði félagsins og hvert stefndi að öðru óbreyttu, nefnilega að fjárfestingamöguleikar félagsins væru að dragast saman og að félagar yrðu að vera vel á varðbergi um nýtingu fjármuna.  Gjaldkeri tók fram að ekki væri búið að undirrita reikningana af skoðunarmönnum vegna fjarveru þeirra og óskaði eftir samþykki reikningana með afbrigðum og fyrirvara um samþykki skoðunarmanna.  Voru þeir samþykktir með þeim fyrirvara samhljóða.

Kosning formanns.

Daniel Snorrason gaf kost á sér áfram og var samþykktur með lófaklappi

Kosning þriggja meðstjórnenda

Ásgeir Bjarnason, Kristján Jakobsson og Ólafur Mikaelsson gengu úr stjórn.  Ásgeir Bjarnason gaf kost á sér áfram.  Eyjólfur Guðmundsson, Friðjón Bjarnason, Kristín Sveiney Baldursdóttir og Þórdís Ása Þórisdóttir gáfu kost á sér einnig.   Fór fram leynileg kosning og tók Steinþór Skúlason að sér kjörstjórn ásamt Pálma Franken.  Tilkynnti hann niðurstöðurnar skömmu síðar sem voru þær að Kristín, Friðjón og Þórdís væru réttkjörin til stjórnarsetu.  Þeir sem sitja áfram seinna árið eru Alexander Daníelsson, Pálmi Franken og Jón Hörður Jónsson.  Var fráfarandi stjórnarmönnum, þeim Ásgeiri, Kristjáni og Ólafi þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins.

Inntaka nýrra félagsmanna.

Afgreitt fyrr á fundinum

Fulltrúi á fund FMÍ (Flugmálafélag Íslands).

Vísað til stjórnar.  Samþykkt

Félagskjörinn endurskoðandi.

Benedikt Ragnarsson og Arnar Hreinsson sátu áður.  Kristján Jakobsson bauð sig fram til skoðunarmanns.  Benedikt og Kristján hlutu kosningu.  Fráfarandi skoðunarmanni Arnari voru þökkuð góð störf í þágu félagsins.

Árgjald

Ekkert inntökugjald er lengur innheimt og því ekki lögð fram tillaga um það.  Stjórn lagði til að ársgjald yrði 30.000 og 20.000 fyrir 67 ára og eldri, (var 25.000 og 15.000).  Kristján Sveinbjörnsson lagði til óbreytt félagsgjöld.  Tillaga Kristjáns var borin upp og felld.  Tillaga stjórnar var svo samþykkt samhljóða í kjölfarið.  Gjaldskrármálin voru rædd.  Óskaði fundarstjóri eftir vísbendingu um það hvort  hækka ætti fluggjöldin „verulega“.   Kristján Sveinbjörnsson kvaddi sér hljóðs og gagnrýndi gjaldtöku fyrir Dímónu og taldi rekstri hennar betur fyrir komið með lægri gjaldtöku sem myndi fjölga flugtímum og auka notkun hennar.  Reynslan af rekstur Dímónunnar gæti gefið vísbendingu um að hækkun gjaldtöku þyrfti ekki alltaf leiða til hærri heildartekna og bættrar afkomu.  Steini Tótu taldi að hærri skýlisleiga gæti verið betra sóknarfæri til að bæta hag félagsins í stað þessi að hækka fluggjöldin óhóflega.  Kristján Jakobsson benti á að SFÍ væri í samkeppni við upphituð skýli og því takmörkunum háð hversu mikið svigrúmið væri til verðhækkana.  Sömuleiðis tók hann undir orð nafna síns um að gera samanburð á gjaldskrám annara svifflugfélaga í Evrópu.  Alexander Daníelsson benti á að bera þyrfti saman verðskrá félagsins við flugskóla í Reykjavík, sérstaklega hvað varðar Dímónu auk þess sem ekki mætti hafa kennslupakkann of dýran sem myndi fæla frá nemendur.  Daníel Snorrason taldi að veðrið gæti haft áhrif á minna flug Dímónu fremur en hátt leiguverð en var samþykkur ábendingu Kristjáns að tachotími ætti að gilda frekar en flugtími við gjaldtöku.  Steinþór Skúlason tók næstur til máls og minnti á að mótórgjaldið hafi verið lækkað frá því sem það var og þá staðreynd að svifflug á Sandskeiði væri síst dýrari afþreying en mörg önnur og að vafalaust væri mun ódýrara að fljúga svifflug á Íslandi en annarsstaðar.  Að lokum gat hann þess að ekki mætti hafa kennsluflug of ódýrt því það gerði miklar kröfur til félagsmanna en afrakstur þess starfs í tölu nýrra félaga takmarkaður. Hólmgeir Guðmundsson tók undir orð Steinþórs.  Fundarstjóri þakkaði framkomnar ábendingar um gjaldskrármál sem ný stjórn félagsins mun taka til sín við gerð hennar fyrir sumarið 2024

Önnur mál.

Jón Hörður Jónsson yfirkennari kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir samstarfi félagsins við Samgöngustofu og vísaði til þess að starfsemi félagsins í reglugerð væri tvíþætt.  Annarsvegar sem DTO (Declaired Training Organisation) ásamt flugkennslu sem lyti ákveðnum stöðlum og svo hins vegar önnur flugstarfsemi.  Gerði hann grein fyrir helstu reglum flugsins á Sandskeið varðandi hæfniskröfur og minnti á nauðsyn þess að fá staðfestingu kennara í flugdagbók flugmanns til vottunar um hæfi.  Þá benti hann á kosti þess að hafa verðlagningu Dímónu hófstillta til að laða að vélflugmenn sem áhuga hefðu á að fljúga þeirri vél sem gæti orðið til hagsbóta fyrir svifflug með fjölgun virkra félaga.  Að lokum vísaði hann til öryggisreglna á Sandskeiði sem hanga upp á vegg við útidyrahurð.  Þessar reglur yrðu allir félagar að lesa og kunna.  Pálmi Franken bað næstur um orðið og afhenti Steinþóri Skúlasyni viðurkenningu Ársmeistara 2023 og Daníel Stefánssyni viðurkenningu fyrir Demants markflug sem var 300 km þríhyrningsflug árið 2020.  Stefán Sigurðsson faðir Daníels tók við viðurkenningunni í fjarveru hans.  Baldur Baldursson benti á að eldvarnarmál í Harðarskála væru í ólestri og úrbóta væri þörf.  Friðjón Bjarnason fundarstjóri boðaði þessu næst kynningu á nýja tölvukerfinu, sem er í raun rafræn flugdagbók á flugtaksstað og nýja vefsíðu félagsins eftir fundarslit.  Nú var kominn kliður í salinn þar sem búið var að bera fram tvær brauðtertur og menn orðnir svangir og sumir farnir að kroppa í aðra tertuna.  Kristjáni Sveinbjörnssyni var því vorkunn þegar hann keppti við veitingaborðið um athygli fundarmanna og benti á væntanlegan norræna svifflugráðstefnu sem haldin verður hér í haust og taldi mikið gagn af norrænu samstarfi.  Mætti í því sambandi benda á samstarf SFÍ við norðmenn um viðhaldsmál og skoðun einkasviffluga sem þyrfti að eiga sér stað á þriggja ára fresti, en mikill kostnaður væri því samfara og fátt um fína drætti miðað við núverandi reglugerð.  Væntanlegur væri norðmaður til landsins með réttindi til að gera öryggisskoðun því enginn íslendingur væri með slík réttindi.

 

Fundarstjóri sleit fundi kl. 1155.

 

 

Friðjón Bjarnason fundarstjóri                            Ólafur Briem fundarritari

 

Leave a comment

Please note that we won't show your email to others, or use it for sending unwanted emails. We will only use it to render your Gravatar image and to validate you as a real person.